27.2.09

Hreint borð?

Þetta er engin frammistaða í blogginu. En ég hef eitthvað ferlega litla þörf fyrir að tjá mig. Geðlyf? Kannski hefur skrifmanían verið af tómri kvíðaröskun? Það væri nú verra. En, best að fara aðeins yfir stöðuna, eins og er svo vinsælt að þykjast gera í pólitíkinni.

Enginn veit hvað við skuldum eða hvort er yfirhöfuð kreppa. Einhver sagði "lúxuskreppa". Betur að satt væri.

Og Árni Matt segir af sér daginn áður en endanlega var staðfest að hann klúðraði yfir okkur hryðjuverkalögunum með einu asnalegu símtali. Þar fóru samsæriskenningar fyrrverandi seðlabankastjóra fyrir lítið. Allavega ÞÆR kenningar. Maðurinn er náttúrulega hafsjór.

Baugur á hausnum og Dabbi á atvinnuleysisskránni. Ætli fari þá ekki að verða friður fyrir karpinu í þeim félögum, bara?

Allavega finnst mér ágætt að vakna með þá tilfinningu að DO er ekki lengur í valdastöðu í samfélaginu heldur bara afdankaður þusari úti í bæ. Engin ástæða til að tala við hann í neinum fjölmiðli fyrr en kannski þegar hann gefur út endurminningar sínar. (Ekki ætla ég að reikna með að þessi gósentíð endist lengi, en er á meðan er.)

Alltént vaknaði ég í dag með einhverja tilfinningu fyrir því að hugsanlega væri hægt að byrja að taka til í rústunum af fjármálakerfinu. Mig langar nú reyndar mest að láta jarðýturnar jafna restina af því við jörðu og halda svo áfram með þjóðfélagið eins og það var áður en nokkur hafði heyrt orðin "fjármálakerfi" og "peningamarkaður".
En ég er nú líka afturhaldskommatittur.

Engin ummæli: