5.6.09

Um sjómannadagshelgi

flý ég með flotann minn til fjalla. Enda skipsnefnin á fjölskyldunni algjör rökleysa miðað við landkrabbalegan sveitaupprunann. (Ja, nema westanblóðið í mér sem ku koma í veg fyrir að ég verði sjóveik.) Í dag er dagur ógurlegra aðgerða. Nú er að hefjast afmælisveisla Smábátsins sem felst í smá pizzuhádegisverðarboði og bíóferð. Tjörgum hans hefur annars verið pakkað saman þar sem hann heldur norður til sumardvalar í sveit og bæ, núna síðdegis. Í dag er einnig ætlunin að pakka saman restinni af fjölskyldunni og bruna með hana til Húsafells í kvöld eða fyrramálið, ef allt gengur upp.

Einnig þarf Móðurskip að koma frá sér drögum að doktorsverkefni sínu áður en farið verður af staðnum, þ.e. ég hef ekki hugmynd um hvernig er að nálgast alnetið þarna upp til fjalla. Hitti sumsé Leiðbeinandann í gær og leist honum ljómandi vel á fyrirhugað verkefni og lagði til að ég hefði doktirsnámið af fullum fítonskrafti í haust. Svo þá er nú vissara að halda á spöðunum og biðja til almættisins að atvinnuleysið haldist út sumarið svo ég nái að klára leikritin sem mig langar.

En mikið erum við nú farin að hlakka til að dvelja í Húsafellinu. Vera úti í sveit þar sem hægt verður að hleypa ormunum út að ólmast í tíma og ótíma, á staðnum er síðan sundlaug handa okkur, heitur pottur á pallinum, golfvöllur handa Rannsóknarskipinu í grenndinni og allt sem þarf til að gera okkur hið fullkomna sumarfrí. Ennfremur var Rannsóknarskip löngu búinn að panta 2 miða á allra síðustu lokasýningu á Mr. Skallagrímsson í Borgarnesi á laugardag. Var svosem ekkert búinn að skipuleggja hvern hann ætlaði að taka með sér. En svo buðust afi og amma Smábátsins, sem líka verða í sumarbústað í Borgarfirði, til að taka að sér litlu ormana svo við hjónin getum bara farið saman í leikhús á laugardagskvöld! Við stöndum á öndinni af tilhlökkun.

Á sunnudaginn mæta síðan afinn og amman frá Egilsstöðum í Húsafellið og verður þar ferlega glatt á hjalla fram eftir vikunni. Einhverntíma undir næstu helgi höldum við síðan heim og býst Móðurskip þá til farar í Svarfaðardalinn góða.

Hérvera mín á næstunni ræðst því af dreifingu alnetsins um leyndustu perlur landsins.

Engin ummæli: