25.11.09

Er maður maður?

Inn á milli þess að standa í bankaskiptum og brjálast yfir dómgreindarskorti stjórnenda bankans hvers nafn ég kann ekki að nefna er ég alveg með hausinn á kafi í Brecht. Er að lesa Mann ist Mann. Myndi á íslensku útleggjast eitthvað svona... Maður í manns stað, kannski. Fantaspennandi stöff og skrifboðið mitt vaðandi í tengdu fræðiefni. Líklega gengi mér þó betur að einbeita mér ef ormarnir mínir væru ekki báðir lasnir og hefðu haldið okkur vakandi með ýmis konar tónleikum í dag. Litlu greyin. Freigátan er með kvef og hita en Hraðbátur er með sitt lítið af hverju, eyrnabólgu, hósta, einhverja magapínu... bara svona óskilgreindan kokkteil.

Við Rannsóknarskip skiptumst á að leggja okkur aðeins í morgun, svo fékk ég að fara í vinnuna og þarf að vinna af mér daginn og fyrramálið, þá ætla ég að vera heima. Þarf nú sennilega að skila einhverju dóti seinna en ég ætlaði. En það er bara allt í lagi. Að hanga heima og knúsast gengur fyrir þegar svona stendur á og er þar að auki miklu skemmtilegra. ;)

Annars eru þetta örugglega bara fráhvörf. Amman fór í gær eftir þriggja daga stopp. Ég fer alveg að leggja drög að því að safna fyrir ömmuhúsi, sem er við hliðina á mömmuhúsi, til að geta alið manninn og börnin í almennilegri nánd við hana. Þetta er svo ljómandi þægilegt.

Svo var Complete Vocal námskeiði Hugleiksins fram haldið í gærkveldi. Þar misþyrmdi ég Ó, helga nótt samviskusamlega svo undirtók í olíutönkunum. (Og þá er ég ekki með neina uppgerðarhógværð. Ég get alveg sungið það fallega. En ég var að prófa svolítið annað. Ákveðið tækniatriði, þrælerfitt, en hreint ekki fallegt á þessu stigi málsins. Arfaskemmtilegt.) Á morgun er svo gítartími, þar er spilaður Blackbird, afturábak og áfram, og helst langar mig að læra að syngja það með, en það er fjandanum erfiðara og ekki má maður nú vera að því að æfa sig neitt geðbilað mikið.

Talandi um æfingar, ég fékk flugu í höfuðið. Ætla að setja upp einn örstuttan þátt fyrir jóladagskrá Hugleiks sem verður um miðjan mánuðinn. Er búin að finna mér leikara og veit hvernig þetta á að vera... þá er bara að finna tíma til að klára að skrifa textann.

Og talandi um tíma, þetta gengur víst ekki... enda var þetta bara svona upphitun til að koma mér í skrifgang fyrir hinar hundfræðilegu pælingar sem ég ætla nú að setja á blað um Benjamin og Brecht.

Engin ummæli: