23.12.09

Er stemming í bænum?

Ég er ekki frá því að félag kaupmanna á Laugaveginum hafi gert einhverja ógurlega samninga við Kastljósið. Samkvæmt því er "svaka stemming" á Laugaveginum og menn "láta kuldann ekki á sig fá."

Ja, það var alveg stemming í friðargöngunni, sko. Magnað að hlusta á predikun Einars Más á Austurvelli. En kuldinn "fékk nú samt alveg á" menn, og í bakgrunninum á Kastljósinu sér maður nú aðallega fólk að flýta sér og viðmælendur eru með munnherkjar. Þetta er kannski líka svona "stemming" eins og þeir segja alltaf að sé á menningarnótt og 17. júní, þegar það þýðir að maður kemst hvorki afturábak né áfram fyrir fólki, sér engan sem maður þekkir og kemst ekki að til að sjá neitt sem mann langar.

Alltaf sama haugalygin í þessum fjölmiðlum. Á Þorláksmessukvöld er ekkert endilega "mesta stemmingin" í því að vera enn að versla.

Hér er bara verið að tjilla. Markvisst byrjað að seinka háttatíma yngri kynslóðarinnar "örlítið". (Stefnum á að fá hugsanlega að sofa alla leið til 8 á morgnana yfir hátíðarnar.) Rannsóknarskip rannsakar eftirrétti. Hann fær að sjá um það á aðfangadagskvöld, þetta árið.

Svakalega er jólalegt á Egilsstöðum. (Ef Kastljósið er þá ekki að ljúga því.) Og Kiddi Vídjófluga er nú alltaf heimilislegur. (Nú fer ég bráðum að grenja úr heimþrá.)

En hér er allt bara ferlega tilbúið. Smábátur er í útláni hjá afa sínum og ömmu og kemur heim á morgun. Við erum bara að bíða eftir því að The Nightmare Before Christmas byrji í RÚV (Ekki að hún sé ekki til hérna í tveimur eintökum og miiiikið spiluð allan ársins hring...) og ætlum að horfa á hana áður en börn verða barin í bólin.

Jólakortin fóru ekkert í ár.
Jólakveðja birtist hér einhverntíma á morgun eða hinn.

Engin ummæli: