Ég hef trú á að bloggið fari aftur inn í rútínuna fljótlega. Allavega þegar einhver regla verður komin á vinnutímann og svona. Mál standa allavega þannig að ég er formlega orðin skráð í doktorsnám við Háskóla Íslands og hefi borgað gjöld, skráð mig í kúrsa og eitthvað svona. Komst í dag að því að ég þarf að sækja um vinnuaðstöðu í Gimlinum en get ekki gert það fyrr en á mánudaginn þegar konan sem sér um það kemur úr fríinu.
Svo hljóp ég 10 kílómetra í gær og er ekki einu sinni með harðsperrur. Hjólaði upp í útvarpshús í dag og það rigndi akkúrat á meðan. Held að 10 kílómetrarnir á laugardaginn ættu eftir þessu alveg að meikast. Hlakka bara til þegar það verður búið og ég get aftur farið að hlaupa eins og mér sýnist.
Komst líka að því að leiklistarhátíðin Lókal verður stútfull af leiksýningum sem ég hef ekki séð, en ætti að sjá, bæði vegna doktorsverkefnis míns og andlegrar velferðar minnar, svo hana er ég að hugsa um að stunda sleitulítið helgina 3. - 6. september.
Annars af fjölskyldu: Rannsóknarskip farinn að vinna og fór ásamt Smábátnum í dag að versla skóladót. (Vesen sem maður er alveg án meðan börnin manns eru í Vesturbæjarskóla.) Freigátan er komin í helgarfrí. Starfsdagar eru fram að helgi í leikskólanum hennar þannig að hún fær tvo mömmudaga sem við ætlum að nota afar vel í allskonar mamms. Hraðbátur fílar sig svaka vel í leikskólanum, sefur tvo tíma á dag og borðar eins og hestur. Kveður með virktum á morgnana, eins og ekkert sé, og er síðan alveg til í að koma heim seinnipartinn.
Smábátur er strax kominn á milljón í félagslífið, varla slitnað á milli hans og vinanna síðan hann kom, svo liggur fyrir að heimsækja einn frænda í föðurætt (eða hinnar stjúpmóðurinnar... er ekki alveg viss) á morgun og sumarbústaðaferð með afa sínum og ömmu um helgina.
Svo það er bévað span og rugl á okkur ennþá, en nú fer þetta allt að komast í föstu skorðurnar. Og þá vonandi bloggið með. Sá einmitt treiler út mynd um daginn sem fjallaði um stúlku sem skrifaði blogg, sem síðan var unnin uppúr bók, sem síðan er greinilega búið að gera úr mynd.
Segiði svo að þetta sé pointlaust!
PS: Myndin sem ég sá síðan á eftir þessum treiler er Karlar sem hata konur og var ég mjög hrifin af henni. Sem er sjaldgæft þegar ég sé myndir sem ég er búin að lesa bókina fyrst. En ég var mjög skotin í þessari. Jám.
19.8.09
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli