9.7.10

Kvæmt fram!

Mikið ógurlega erum við nú dugleg í húslegunum í sumar.

Þetta hófst eiginlega allt á því að sjónvarpið gaf upp öndina. Það var svona stórt og gamalt klumpusjónvarp, sem þurfti stóran og gamaldags sjónvarpsskáp undir sig. Sem náði náttúrulega lengst út á gólf. Og við nenntum einhvernveginn aldrei að skipuleggja stofuna almennilega í kringum þetta flykki, af því að við grunuðum þetta sjónvarp um að vera deyjandi.

Jæja, hálfum mánuði fyrir HM gaf það upp öndina. Fjárfest var í flötu. Og þá var hægt að endurskipuleggja.

Samt var ákveðið að byrja á allt öðru, nefnilega að mála eitt lítið herbergi (ljósbleikt) og skella hjónarúminu þar inn, skilja litlu börnin eftir í stóra herberginu með allt dótið. Það er búið og gert og kemur reglulega vel út.

Aukinheldur er gólfið í eldhús-stofunni orðið algjörlega olíu/lakk (hvort sem það hefur nú einhverntíma verið) -laust. Ég hringdi í mann sem kom og kvað upp þann úrskurð að það væri vel hægt að slípa það og lakka. Og það yrði alveg eins og nýtt. Það verður gert þegar við verðum farin. Bára syss ætlar ennfremur að hirða mest af stofuhillunum og píanóið sitt, í framhaldinu ætlum við að fjárfesta í hillum í IKEA sem nýta plássið betur, bæði á hæð og breidd. Og nettari sjónvarpshirslu. Og áður en við gerum það ætlum við að mála stofuna. Pastelgræna. Það verður gert um Verslunarmannahelgina, en einmitt þá sný ég aftur frá ráðstefnu í útlöndum og Rannsóknarskip flýgur í bæinn til aðgerðanna og börnin verða eftir hjá ömmu og afa á Egilsstöðum á meðan, við mikinn fögnuð allra viðstaddra.

Gaman væri nú líka að láta taka gólfið á herbergjunum í gegn, og spasla í og mála innihurðirnar, en það bíður örlítið betri tíma.

Ég hugsa að þetta skili sér nú líka alltsaman í seljan/leigjanleika íbúðar, en við stefnum á að yfirgefa hana sumar 2012. Og líklega fyrir fullt og allt þar sem hún verður líklegast sprungin utan af fjölskyldunni þá. Hins vegar spurning hversu hátt lánin munu hafa vaxið henni yfir höfuð... En þau vandamál eru nú alveg seinni tíma.

Enda verður peningakerfið örugglega hrunið þá.

En mikið ógurlega verður nú orðið drullufínt hjá okkur í haust. Liggur við að maður setji inn myndir.
Þá.

2 ummæli:

Spunkhildur sagði...

Híhí...Til hamingju með dugnaðinn góða mín og hver veit, kannski verður íbúðin í ærgildum eða þorskígildistonnum þegar þið komið að utan. Eða kannski byrjar peningabrjálæðið upp á nýtt og íbúðin átján ríkisdala virði...

Sigga Lára sagði...

Hahaha!
Já. Ég sel hana kannski fyrir hálfan reit af saltfiskbreiðu, hlut í skreiðarhjalli, eina velmjólkandi, skjöldótta forystukýr og nokkra ammríska skildinga...
sem enginn veit hvort eru einhvers virði.

Þá fyrst fer nú að verða gaman að stunda viðskipti!