2.3.10

Um listamannalaun og atvinnuleysisbætur

Netheimar loga eftir orðaskipti tveggja Þráinna á Bylgjunni um listamannalaun. Það sem mér finnst merkilegast í umræðunni er að listamannalaunum er líkt við atvinnuleysisbætur, og það ku eiga að vera þeim til minnkunnar. Að listamenn séu „afætur“ á samfélaginu.

Eins og atvinnulausir, þá?

Það finnst mér endurspegla mjög alvarlegt viðhorf. Ekki til listamanna, heldur til atvinnulausra og þeirra sem þurfa að þiggja bætur í einhvern tíma fyrir að teljast ekki nothæfir sem dyggir þrælar Mammons og kapítalsins.

Ég hef tvisvar verið á atvinnuleysisbótum í einhvern tíma. Í bæði skipti í Reykjavík. Í bæði skiptin tímabundið og sá fyrir endann á tímabilinu áður en það hófst. En í bæði skiptin var það einkar óskemmtileg reynsla, sérstaklega hvað varðaði samskiptin við þá stofnun sem með þau mál hefur að gera. Ég lýsti síðara skiptinu á kjarngóðri íslensku hér.

Það hefur löngum verið það ljótasta sem hægt hefur verið að segja um Íslending að „það sé ekkert hægt að nota hann.“ Nútímaútgáfan af þessu viðhorfi er einhvern veginn á þá lund að það borgi sig ekki að gera neitt sem ekki skilar sér, til gerandans sem einstaklings og til samfélagsins, í beinhörðum peningum. Verk sem ekki borga sig, helst margfalt, og það á skömmum tíma teljast einfaldlega „ekki gagnleg“ og þar með einhvernveginn syndsamleg og næstum bönnuð. Heilbrigðis- og menntastofnanir skulu standa undir sér. Sá ávinningur sem felst í heilbrigði og menntun á sál og líkama skiptir engu í „hagkerfinu“.

Menningargildi og rannsóknir? Hamingjusamt og réttlátt samfélag?
Hvað er hægt að græða á því?

Síðasta sumar var ég á atvinnuleysisbótum og ákvað að líta á þær sem listamannalaun. Kláraði t.a.m. tvö handrit sem ég hef verið að vinna í, svona annað slagið, síðan ca. 2002. Verða þau einhverntíma einhverjum til gagns? Skila þau hagnaði? Eru þetta verðlaunastykki?
Það veit andskotinn.

Ég veit hins vegar að ef ég hefði eytt þremur mánuðum í að skammast mín í sálinni fyrir að vera ekki gagnlegur launaþræll er ekki víst að tilvera mín hefði skilað neinu nema ama og leiðindum þareftir.

Eru listamannalaun „glorified“ atvinnuleysisbætur?
Eða eru atvinnuleysisbætur kannski rangnefnd listamannalaun?

Peningarnir eða lífið? Eru peningarnir kannski lífið?
Er þrældómur hjá auðvaldinu það eina sem er þessi virði að vinna að?
Er glæpur gegn hagkerfinu að gera hluti án þess að hagnast á þeim?
Er glæpur hagkerfisins að borga fólki stundum fyrir annað en það sem skilar sér í beinhörðum innflutningstekjum á næsta ársfjórðungi?

Þarna er efinn.

2 ummæli:

Elísabet Katrín sagði...

Já og svo ef maður ætlar að fara "skynsömu" leiðina, eins og ég gerði sl. sumar, og vera í námi og taka námslán í stað þess að "slæpast" á atvinnuleysisbótum...þá eru bara námslánin mín skert um þær 20 einingar sem ég tók...svo ég fæ bara lán fyrir 40 ein í stað 60...alveg frábært bara...og þarf n.b að borga það til baka! Asnalegasta kerfi ever!
Ég er ekki hissa á að allt sé í fokki á þessu landi, algert stjórnleysi og eiginhagsmunapot verið einkenni þeirra sem ráða sl.áratugi!

Sigga Lára sagði...

Nei.
Það væri líklega kraftaverk ef hér væri EKKi allt í pati eins og vítleysan hefur verið.

Og ekki virðist það heldur batna neitt.