25.4.11

Útvarp Kópavogur...

veðurspá.

Ég spæ því að eftir tvö norðaustansumur í röð verði brakandi blíða á norður og austurlandi alla hundadagana í sumar. (Frá ca, júlíbyrjun fram undir ágústlok.) Og síðan áfram, auðvitað, þar sem hauststillurnar búa mjög gjarnan fyrir austan. Hins vegar er ég hrædd um að fljótlega fari að kólna þar eystra þar í bili, og verði skítviðri fram undir, eða yfir, Jónsmessu.

Þetta með sumarblíðuna gæti síðan svo sem klikkað. Ég var að rifja upp hitabylgjupáskana á Egilsstöðum 1993. Blíðan hélst alveg eitthvað áfram. Ég man að við dimmiteruðum í brakandi blíðu. Á leiðinni í síðasta prófið mitt í Menntaskólanum á Egilsstöðum festi ég hins vegar bílinn á Lagarásnum og þurfti að skilja hann eftir og hlaupa á milljón gegnum snjóskafla á kirkjuleiðinni til að meika það í prófið. (Þýsku 403, ef eg man rétt.) Sumarið varð síðan alveg fullkomlega ömurlegt. Hitinn fór varla nokkurntíma í tveggja stafa tölu og það var OFT slydda. Sumarið kom eftir 20. ágúst. Þá var ég flutt til Akureyrar. Þeir sem fluttu til Reykjavíkur mættu beint í haustrigningar og fengu ekkert sumar. Þannig var það nú.

Þess vegna spái ég, hokin af veðráttureynslu, skítaveðri eystra og nyrðra, frá miðjum maí að júnílokum, en af meðfæddri bjartsýni spái ég því að rétt snúist í hundadögunum.

Reykjavíkursumarið er síðan eiginlega alltaf eins. Þarf ekkert að spá um það. Hitinn verður 10 - 15 stig og ýmist rigning eða sól. (Meira af rigningu en sól ef spá mín um suðvestlæga hundadaga gengur eftir.)

Annars veit ég ekkert hvernig sumarið verður. Planið er að vera viku á Húnavöllum og læra að leikstýra. Síðan þyrfti ég að fara vestur (á Patreksfjörð) norður (í Eyjafjörð) og austur (aðallega í Egilsstaði) og myndi nú alveg vilja stoppa dáldið á hverjum stað. Vera svo mætt í bæinn í tæka tíð fyrir Japan. 4. ágúst. Inn á milli þarf ég svo að taka slatta af viðtölum og þýða Önnu í Grænuhlíð. Og svo er ég að spá í að gera kannski einhverja útvarpsþætti... Kannski bara eitthvað í sambandi við allt þetta flakk? Eða verður kannski alveg nóg að gera?

Í allefall verður þurrkatíð í fjármálum. Líklega ekki króna af innkomu fyrr en vaxtabætur hrynja inn í ágústbyrjun, já og svo styrkir vegna Japansferðar, löngu eftirá, seinna í ágúst. Og ferlega væri nú gaman ef það færi ekki alveg allt í yfirdráttardrauginn.

Hérna megin við páska er sumarið fáránlega skammt undan. Og maí er alltaf ferlega stuttur mánuður, einhverra hluta vegna. Og ferlega þyrfti maður nú að haska sér út að hlaupa eftir þessa páska ofeldisins.

Bara er veðrið vildi nú vera svo vænt að fara að haga sér...

Engin ummæli: