15.7.12

Í almennilega vinnu eins og allt eðlilegt fólk!


Varla var rafblekið þornað á pistlinum mínum um dásemdir blanka bóheimlífsins en ég fékk vinnu. Stöðu, jafnvel. Reyndar tímabundna og ekkert á neinum forstjóralaunum en titillinn er átakanlega virðulegur.

Næstu sextán mánuði verð ég „Verkefnastjóri sviðslista á Fljótsdalshéraði“ hvorki meira né minna. Með launum um hver mánaðamót, vinnuaðstöðu, persónuafslætti og sumarleyfisdögum. 

Frá og með mánaðamótum verð ég með „almennilega vinnu eins og allt eðlilegt fólk.“ Best ég hringi í Ásbjörn alþingismann. Hann vill kannski verða vinur minn á feisbúkk?

Klikkað.

Í þessu starfi eru allskonar spennandi verkefni, sum fyrirliggjandi og svo öll hin sem ég á eftir að finna uppá í samstarfi við allt góða og skemmtilega sviðslistafólkið á svæðinu og annarsstaðar. Mér finnst svolítið að það eigi að fara að borga mér fyrir, og það á reglulegum basis, það sem ég geri venjulega frílansandi eða frítt.

En sá böggull fylgir náttúrulega skammrifi að það er, eins og fyrr kom fram, á Fljótsdalshéraði. Og varð ekki ljóst fyrr en komið var fram á sumar þannig að við ákváðum að vera ekki að rótast neitt með fjölskylduna í bili og þau yrðu fyrir sunnan í vetur. Sem þýðir að ég verð ein fyrir austan. Hjá pabba og mömmu. Og ömmu. Ég ætla náttúrulega að vera dugleg að passa þau en ég reikna nú samt svona frekar með því að heima hjá mér fari alla jafna enginn að grenja í vetur. Kannski fæ ég mér meira að segja einhverja einmanalega kjallaraholu seinnipartinn í vetur. Þar sem ekkert heyrist á síðkvöldum nema sönglið í Rás 1, hvorki verður internettenging né sjónvarpstæki í húsi og ég þarf ekki að klippa neglurnar á neinum nema sjálfri mér.

Auðvitað verður erfitt að vera fjarri fjölskyldunni. Ég get eiginlega ekki einu sinni ímyndað mér hvernig það verður. En ég er samt komin með gífurlega marga draumóra um allt sem ég ætla að afreka á tímanum utan vinnutíma sem nú fer ekki í að skeina, snýta og þrasa.

Til dæmis ætla ég að:
- Æfa mig reglulega mikið á gítar, úkúlele og allt annað sem ég næ í.
- Skrifa doktorsritgerð.
- Skrifa grein í erlent, ritrýnt tímarit.
- Skrifa allann fjárann annan.
- Liggja uppí sófa, hlusta á Rás 1 og lesa bók mér til skemmtunar um miðjan dag.
- Fara í allar fjallgöngurnar með fjallgönguklúbbnum Fjallhress.
- Hlaupa, hjóla og synda á hverjum degi eins og biluð. (Missa þessi 10 kíló, btw. en það verður nú bara í hjáverkum.)
- Þýða 3. 4. og 5. bók um Önnu í Grænuhlíð.
- Vera ævinlega óaðfinnanlega til fara.
- Ráfa um skóginn.
- Heimsækja alla sem ég þekki. Oft.
- Iðka jóga.
- Vera fyrirmyndardóttirin sem annast aldraða forfeður sína af þvílíkri alúð að annað eins hefur ekki sést í veraldarsögunni.

Já, það er séns að ég standi ekki við þetta alveg allt…

Og þar sem þetta var ekki alveg planið verða næstu vikur ansi, ja skrítnar. Ég hefði líklega skipulagt mig aðeins öðruvísi ef ég hefði vitað að ég yrði að flytja búferlum á milli landshluta um mánaðamótin.
En svona er farðaplan mitt næstu vikur:

Föstudagur 20. júlí: Keflavík - London - Madrid
Laugardagur 21. júlí: Madrid - Santiago (12 tíma flug dauðans) hvar ég verð í viku á ráðstefnu. Það er vetur í Chile.
Sunnudagur 29. júlí og mánudagur 30. júlí: Santiago - Madrid - Kaupmannahöfn (12 tíma dauðasvefn á sveitahóteli nálægt Kastrup.)
Þriðjudagur 31. júlí: Lest frá Kastrup til Sönderborg hvar ég mæti beint í setningarathöfn í Sönderborgarkastala og opnunarsýningu í Sönderborgarleikhúsi en af henni er ég einmitt handritshöfundur. Svo er leiklistarhátíð, bara, áfram.
Sunnudagur 5. ágúst: Billund - Keflavík klukkan eitthvað fáránlegt um morguninn.
Þriðjudagur 7. ágúst: Reykjavík Egilsstaðir - aðra leið.
Eitthvað af fjölskyldunni verður reyndar hjá mér til að byrja með. Fer með litlu börnin í bæinn 21. ágúst og eftir það hefst Einlífi Framakonunnar.
Sem er líklegur titill á næstu færslu.

Engin ummæli: