31.12.12

2012

Ókei. Hvað gerðist?

Síðasta ár hófst eins það næsta mun gera, hér í Kópavogi. Aldrei slíku vant vorum við reyndar með Smábátur heima á áramótum, en hann flaug til Flórída með móðurfólkinu sínu annan janúar og dvaldi í sólinni um tveggja vikna skeið. Og þar með hófst ferðabrjálaðasta ár í sögu fjölskyldunnar.

Ég kenndi í námskeið í háskólanum og kláraði að aðstoðarleikstýra og skrifa Þann glataða með Hugleiknum. Hann var frumsýndur... einhverntíma. Örugglega bara í byrjun febrúar, eða eitthvað? Í vor kláraðist kennslustyrkurinn sem ég var á, fékk engan styrk í doktorsritgerðina og langaði ekkert í annan vetur á stundakennaralaunum með tekjulausum sumrum á milli. Svo ég sótti um vinnu. Á Egilsstöðum. Og fékk hana.
So...there.

Þegar ég frétti það var ég á leiðinni til Frakklands með Hagaskólagenginu og Rannsóknarskip var búinn að skreppa til Rúmeníu í millitíðinni.
Og Smábátur útskrifaður úr Hagaskóla.

Á meðan við vorum í Frakklandi, nánar tiltekið Montpellier, var Smábáturinn í bænum að vinna, og var skipt á milli ættingjanna, og litlu börnin fóru með afa og ömmu að austan, vestur. Það var svo skemmtileg ferð að það var bókstaflega grátið yfir að hún væri yfirstaðin, löngu síðar.

Freigátan útskrifaðist af leikskólanum Grænatúni.

Í júlí fór ég til Chile. Hélt fyrirlestur. Fór síðan til Danmerkur. Á leiklistarhátíð NEATA með Þann glataða. Flutti síðan nánast lóðbeint til Egilsstaða þar sem ég hef verið í fjarbúð frá fjölskyldunni í allt haust. Til að byrja með í Ágúst var Árni hjá mér, en hann fór fljótlega með Róbert suður en þau litlu voru hjá mér þar til skólinn byrjaði. Ég fór síðan með þau í bæinn þegar skólinn byrjaði. Freigátan byrjaði í Snælandsskóla. Smábátur byrjaði í Fjölbraut í Ármúla.

Síðan fór ég bara austur og aftur í tímann, flutti inn í gamla herbergið mitt og fór að kenna í gamla menntaskólanum mínum. Vinna almennilega vinnu eins og allt eðlilegt fólk. (Tímabundið, út 2014.)

Já, og í lok sumars kom nýja þýðingin mín að Önnu í Grænuhlíð út. Það var nú gaman. Bók 2., Anna í Avonlea, er farin í yfirlestra og er væntanleg á vordögum.

Svo var ég í Kópavoginum í hálfan mánuð í september þar sem Rannsóknarskip þurfti að fara aðeins til Tyrklands. Eins og menn gera.

Svo er ég búin að jójóast á milli í haust, og þau einu sinni austur. Mikið verður nú gott þegar þau koma alfarið til mín í vor eða sumar.

22. desember fór síðan Sigga amma mín „yfir í sælustraffið“ eftir margra ára erfið veikindi. Mikið var hún sjálfsagt glöð að fá að halda jólin öðruvísi en liggjandi á sjúkrahúsinu, eins og undanfarin ár. Við byrjum árið 2013 á að jarða hana svo jólin hafa að hluta til farið í minningagreinaskrif og kransapælingar.

Svo er ég örugglega að gleyma einhverju sem gerðist á árinu. Örugglega mörgu.

Og þá er að bresta á með 2013. Útlit er fyrir að atvinnuástand húsfreyjunnar verði nokkuð stöðugt, nema hún klúðri einhverju geðveikt illa en flutningar annarra í fjölskyldunni standa fyrir dyrum í vor eða sumar. Planið er að gefa Egilsstöðum séns í allavega ár eða svo.
(Hin halda að þau nái mér síðan kannski í burtu aftur. Hahahahihihoooo!)

Gleðilegt ár!
Takk fyrir það gamla!


2 ummæli:

Unknown sagði...

Hvar er læk takkinn?

Nafnlaus sagði...

Sækja um fljótlegt og þægilegt lán til að borga reikninga og til að hefja nýjan fjármögnun verkefnum þínum á ódýrustu vexti 2%. Hafðu samband við okkur í dag með: elijahloanfirm@outlook.com með lánsfjárhæð sem þarf vegna þess að lágmarkslánið okkar er 1,000.00 að einhverju vali lánsfjárhæð.