16.4.03

Góðir Íslendingar.
Það er helst frétta úr héraði að nú hef ég heimt hana litlu systur mína heim í páskafrí, og smitað hana af prjónadellu. Nú fyrir stundu sátum við einmitt tilfætis í baðstofu foreldra vorra þegar allt í einu glumdu heldur en ekki kunnuglegar raddir úr viðtækinu, þar voru komnir þeir Svavar og Snorri að tala um eitís hljómsveitina sína, Múnbúts. Mikið langaði okkur nú að geta brugðið undir okkur betri fætinum og fara og sjá þá snilldarmenn á Astró um páskahelgina, en það verður víst ekki á allt kosið í þessu lífi.
Einnig fann ég til þess að hann Snorra minn hef ég nú bara ekki séð svo árum skiptir, enda ekki heyrt margt fyndið eða spaklegt í mörg ár. Úr þessu þarf endilega að bæta næst þegar ég á leið í bæinn.
Annars, ennþá jafn gaman í vinnunni. Ferðast aftur í tímann á hverjum degi og er það vel. Nútíminn er hvort eð er kjánalegur og mest fyrir plebba. Um páskana er fátt fyrirhugað, nema hvað við systurnar höfum huxað okkur að ræna bifreið föður okkar, (sem inniheldur þessa dagana nýmóðins hljómflutningstæki með geislaspilara og allt!) og bregða okkur á Stöðvarfjörð, en það fullyrðir systir mín að sé afbragð allra staða hvað mannlíf og menningu snertir.
Þetta er sumsé alltsaman gífurlega spennandi.

Engin ummæli: