7.6.03

Merkilegt.
Síðustu fréttir af heilsufari voru ullu flestum meiri taugatitringi heldur en mér sjálfri. Eftir nokkra umhuxun held ég að það sé vegna þess að það er bara margt í lífinu sem mér finnst erfiðara að díla við heldur en einhver aulasjúkdómur sem átti kannski að hafa einhver áhrif einhvern tíma í framtíðinni, og þar að auki bara á skurnið, en ekki heilann. (Altsheimier. Það er skerí.)
Það sem mér finnst erfiðara í lífinu heldur en einhver huxanleg örkuml eru m.a.: Karlmenn, hálfkláraðar MA ritgerðir, barátta gegn framrás kapítalisma í vestrænu samfélagi, heimskulegar áætlanir um byggingu menningarhúss með áherslu á sviðslistir (á mannamáli leikhús) á Egilsstöðum þar sem planað er að hafa líka BÆJARSKRIFSTOFUR, svo fátt eitt sé nefnt.
Allt þetta þykja mér alvarlegri mál heldur en það hvort akkúrat þetta hérna pínulitla tannhjól í eilífiðinni ferðast um á fótum eða hjólum. Það þarf að sjá heiminn í stærra samfélagi en það.
Hins vegar var gífurlega skemmtilegt að sjá alla þá snillinga sem rákust inn á bloggið mitt af þessu tilefni, og gaman væri að vita hvort þeir ágætu einstaklingar eru einhversstaðar með blogg sjálfir! Þakka kærlega fyrir öll gleðilætin. Ég komst mikið við að sjá hvað menn urðu glaðir fyrir mína hönd og grenjaði oft næstum.
Að öðru. Nú er runnin upp gífurlega menningarleg helgi. Við Rannveig og Bára lögðum land undir hjól í gærkvöldi og bruggðum okkur á opnun myndlistarsýningar á Skriðuklaustri sem er samsett af landslagsmyndum úr austfirskri náttúru eftir hina og þessa snillinga. Þetta er hin flottasta sýning og glæsilegt framtak hjá Skúla Birni og Gunnarsstofnun, sem er að verða meiriháttar perla í menningarlífi héraðsins. Í kvöld er síðan stefnan tekin á sýningu Þjóðleikhússins "Rakstur" sem er verið að sýna í Valaskjálf þessa helgi. Í næstu viku þarf síðan að sjá sýningu Óperustúdíós Austurlands á Don Giovanni, og á föstudag verður brennt norður í Svarfaðardal á leikritunarnámskeið. Ha? Ekkert menningarlíf úti á landi?
Svo fara að hefjast fundahöld í stjórn Leikfélags Fljótsdalshéraðs með leikstjóra til að ákveða stórverkefni haustsins. (Mér finnst mjög undarlegt að vera búin að vera hér í þrjá mánuði og hafa ekki farið á eina einustu leikæfingu. Stórundarleg tilfinning.)
Einnig liggja fyrir mjööög harðorð greinarskrif vegna undarlegheitum í vinnu bæjaryfirvalda með áform um menningarhús (sem var lítillega minnst á hér að ofan). Fór á hádegisfund um daginn þar sem kynntar voru tillögur einhverra starfshópa sem báru þess skýr merki að hafa aldrei í leikhús komið. Ekkert samráð haft við sviðslistamenn á svæðinu og stefnt á að byggja einhvern arkitektúrískan skandal þar sem mönnum finnst alveg upplagt að slá saman bæjarskrifstofum, ráðstefnusölum OG leikhúsi. Greinilega ekkert verið að átta sig á því að leikstarfsemi fylgir hávaði sem þarf að fara fram í þögn, og DRASL. Svona alveg dæmigert stjórnsýslu fokkopp. Sem betur fer á ekkert að gerast áþreifanlegt í þessu máli fyrr en eftir einhver fjögur ár, þannig að enn er nógur tími til að rífa kjaft og láta kjósa sig í bæjarstjórn.
Þaðvarnúþað. Best að hætta að rífa sig um leikhúsmál og fara að sjá Rakstur. Kannski er það vont leikrit og þá get ég setið uppi á kaffi Nilsen í kvöld og rifið mig yfir því! Gaman!

Engin ummæli: