12.7.03

Það eru álög á vinnuhelgum mínum þetta sumarið. Fyrir hálfum mánuði var ég að vinna. Þá var jazzhátíð, fullt hús af gestum, útihátíð í stofunni og gargandi blíða úti.
Um síðustu helgi var ég ekki að vinna. Þá var fýlulegt veður og ekkert að gerast í menningar- eða félagslífi.
Um þessa helgi er ég að vinna, og eins og við manninn mælt, Snorri Hergill á svæðinu (var reyndar gróflega misnotaður sem afsökun fyrir fyllerýi í gær, þar sem hann sjálfur var lasinn og komst ekki með), partý á Lagarfljótsorminum í kvöld og sólin skín, þvert ofan í fúlar veðurspár. Það lítur út fyrir að safngestir verði bara að lifa við það að safnvörður hér verði meira og minna fullur/þunnur/geðvondur aðra hverja helgi í sumar.
Annars var uppistandið hans Snorra hreinasta gargandi snilld í gær, eins og við var að búast. Það mættu reyndar alveg skítlega fáir, en eftirá að hyggja þá er mér bara alveg hjartanlega sama, enda fékk ég manninn hingað aðallega til að skemmta mér. Það gerði hann svikalaust, það er langt síðan ég hef hlegið svo mikið að ég fékk harðsperrur í þindina. Þeir sem af misstu, ja, þeir misstu bara af, og eru óhamingjusamari en þeir vita af fyrir vikið.
Ókei. Best að fara að reyna að láta renna af sér yfir ísfólkinu.

Engin ummæli: