20.10.03

Jæja, kæru vinir, nær og fjær, til sjávar og sveita,
þá er liðin hin hefðbundna "síðastahlegi fyrir frumsýningu" með tilheyrandi taugadrullu og langdvölum í Valaskjálf. Á fyrstu árum bakteríunnar notaði ég ævinlega þennan tíma í að endurtaka með sjálfri mér "aldrei aftur" í ýmsum tóntegundum. Nú orðið veit ég betur en að reyna að ljúga því að sjálfri mér, en er í staðinn farin að segja "næst ætla ég BARA að leika"... sem er trúlega BARA önnur sjálfsblekking.
Næsta helgi verður hins vegar alveg þrusu skemmtileg. Generalprufa á Gaukshreiðrinu er á fimmtudagskvöld, á föstudagsmorgun fer ég síðan í bæinn, á Bandalagið, nemendaskrá og fleiri fantaskemmtilega staði. Föstudags eftirmiðdagur og kvöld fer síðan væntanlega í að rifja upp hvernig kallinn minn lítur út, nema ég drífi þann hinn sama á frumsýningu hjá Stúdentaleikhúsinu, sem væri svosem ekki leiðinlegt. Á laugardegi kemur svo að tilgangi ferðarinnar, Örleikritahátíð í Borgarleikhúsinu. Þar ætla ég að vera leikkonunum mínum fræknu í "Sambekkingar" til halds og trausts. Hátíðin hefst klukkan 17.00 og stendur fram á kvöld. Miðapantanir held ég að séu í Borgó, annars eru örugglega upplýsingar um það hér.
Þar með er þessi ógurlega leikhúshelgi aldeilis ekki búin, á sunnudagsmorgni flýg ég aftur heim í heiðardalinn og spæni væntanlega tiltölulega beint upp í Valaskjálf hvar Gaukshreiðrið verður frumsýnt klukkann 17.00 þann dag. Svo verður standandi gleði fram eftir kvöldi.

Fréttir dagsins af veraldarvefnum eru annars þær helstar að hún Svandís mín sem ég gerði þá fíflsku að skilja eftir úti í Montpellier er aftur komin í samband við umheiminn og er það fantavel. Það dregur allavega úr líkum á því að maðurinn sem ég kynnti hana fyrir sé klikkaður hjólsagarmorðingi og búinn að grafa hana úti í garði. (Hihi. Vill til að hann Jonathan skilur ekki baun í íslensku þannig að um hann get ég bullað hverju sem ég sýnist.)
Hef annars stundum verð að hálfspá í að blogga líka á ensku fyrir úttlendingapakkið sem ég þekki... ég held bara að það sé ekki hálf glæta að ég nenni því.

Rokk on!

Engin ummæli: