30.11.03

Í dag eru liðin 35 ár síðan foreldrin mín brugðu sér, bandólétt, upp í Vallaneskirkju og létu gifta sig að viðstöddum einhverjum örfáum sem ég veit ekki einu sinni hverjir voru.
Á heimilinu er ekki til giftingarmynd af þeim. Né heldur annars staðar á Austurlandi, mér vitanlega. Hjá ömmu fyrir vestan er ein, þar sem þau brosa voða fallega hvort upp í annað. Það líður næstum yfir móður mína í hvert sinn sem hún sér þessa mynd af því að henni finnst hún eitthvað svo væmin og hallærisleg.
Mamma var búin að steingleyma því að hún ætti brúðkaupsafmæli þangað til ég mundi það og fór að óska henni til hamingju núna seinnipartinn. Pabbi mundi það reyndar, en þótti ekkert taka því að vera að hafa orð á því neitt sérstaklega. Þeim þykir bara ekkert sérstakt tiltökumál að þau skuli vera gift.
Það er sennilega bara alveg laukrétt hjá þeim að vera ekkert að gera veður út af því. Á þessu heimili hefur allavega ævinlega ríkt að mestu leyti friður og eining. (Nema kannski þegar við Hugrún vorum yngri og reyndum að kála hvort annarri á daglegum basís, eða þegar við förum allar að leggja litla bróður okkar í einelti... en svoleiðis smáatriði virðast ekkert hafa káfað upp á samlyndi hjónanna foreldra vorra.)
Ég vona allavega að ég geti einhverntíma verið búin að vera gift í 35 ár án þess að taka sérstaklega mikið eftir því. Ef hægt er að þola einhvern nálægt sér í allan þann tíma án þess að þurfa að halda sérstaklega upp á það hlýtur dæmið að ganga einstaklega vel upp.

Engin ummæli: