13.1.04

Í nýju gömlu vinnunni minni er komin ný ljósritunarvél. (Allavega síðan ég vann hér síðast.) Hún er alveg eins og hugur manns, krumpar ekki handritin og borðar, eins og sú gamla gerði stundum, og getur allt nema hellt upp á kaffi. (Það gerir hins vegar nýja kaffivélin í nýja eldhúsinu.)

Maður bað um að fá að lesa Unga menn á uppleið. Brást ég glöð og uppmeðmér við, sérstaklega þar sem umræddur er alveg frægur og leikskáld í þokkabót. Nennti reyndar ekki að leita uppi rafrænt eintak sem ég á kannski einhversstaðar, heldur fann bara handritið í safninu, fór um það mjúkum höndum og fór að ljósrita. Brá þá svo við að maskínufjandinn tók upp ósiði forvera síns og byrjaði að krumpa og éta með látum. Ég svitnaði og sá í anda að nú yrði ég að ansa beiðni viðkomandi með þeim heimskulegu upplýsingum að eina eintakið af hugverki mínu væri horfið á vit forfeðra sinna og aldrei það kæmi tilbaka.

Tókst þó að bjarga málum fyrir horn, með líkamlegu ofbeldi gagnvart vítisvélinni sem nú er í ónáð fyrir að þykjast hafa einhvern persónuleika til að kenna mér hvernig á að varðveita hugverk mín. Nú verður ónýta tölvan tekin með í vinnunna og því bjargað af harða diskinum sem bjargað verður, áður en það verður um seinan.

Mér er þvert um geð að viðurkenna það, en skrifstofubúnaður getur vakið mann til umhugsunar.

Engin ummæli: