12.2.04

Í´gærkvöldi gerði ég skemmtilegan hlut.
Fór á tónleika með húsvískri pönkhljómsveit eftir æfingu. Stóð þar í hávaða og reykmekki góða stund, drakk bjór og fylgdist með fyrr- og núverandi Hugleixhljómsveitarmönnum öskra slefa og svitna og skemma hljóðfærin sín.

Nú myndu kannski skynsemdarmenn heimsins spyrja hvernig mér hefði dottið slík fásinna í hug? Svarið er einfalt.

VEGNA ÞESS AÐ ÉG GET ÞAÐ!

Hefði einhver reynt að segja mér á sama tíma fyrir ári að ég ætti eftir að geta staðið upp á endann við þessar aðstæður hefði ég sagt þeim hinum sama að hætta að bulla vitleysu. Ég var jú greindur MS sjúklingur sem var að missa taukakerfið til fjandans. Og nú er öldin önnur.

Er ennþá að átta mig á því að nú eru mér engin takmörk sett. Ekkert fara varlega kjaftæði neitt. Ég er algjörlega fær um að taka þátt í hverri þeirri vitleysu sem mér sjálfri sýnist og þarf ekki að velta fyrir mér sérstaklega heilsufarslegum afleiðingum neins. Ja, þ.e.a.s., ekki meira en hver annar. Þetta er geðveik hugljómun sem er þó eiginlega ekki að "sinka inn" nema smá saman.

Hef heyrt á fólki sem ég hef talað við að þeim finnst ég eiga að vera sorrý svekkt og sár og fúl og fara í mál við alheiminn vegna þess að ég lifði með rangri sjúkdómsgreiningu í 8 ár. Ég er bara ekkert bitur og dettur ekki í hug að bölsótast við einn eða neinn. Ég veit nákvæmilega hvað alheimurinn var að meina. Til þess að læra almennilega að meta góða heilsu og gott líf, þarf maður fyrst að hafa haft það reglulega skítt. Það er nú bara þannig.

Ætla ekki að halda því fram að ég hafi átt verra líf en margir aðrir, en það hafa jú komið hrukkur og krumpur á veginn annað slagið og það er bara ekkert nema lærdómsríkt.

Hef hins vegar huxað mér að taka allan þann skít sem alheimurinn hendir í mig, í fortíð nútíð og framtíð, og rækta með honum heilan akur af snilld.

Húrra fyrir meinlætunum!

Engin ummæli: