(Í tilefni af Umræðunni Endalausu um áhuga/atvinnumennsku í leikhúsi. Varríus er með langhund um málið, eins eru hnútuköst í gangi á spjallþráðum leiklist.is. Tjái mig hér um þetta mál í einum stutt- langhundi, þarf vonandi aldrei að gera það aftur. Finnst þetta að mörgu leiti óspennandi og banöl umræða, get samt ekki gert af því að hafa á þessu óþarflega margar skoðanir.)
Ég heiti Sigríður og ég er áhugaleikari.
Það þýðir að ég leik syng og dansa af hjartans list, en hef ekki diplópu í því, per se. Ég er hins vegar búin að vera að þessu í ein 15 ár, fara á heilan haug af námskeiðum og er orðin nokkuð lunkin, þó ég segi sjálf frá, sérstaklega miðað við það að ég er alls ekki einn af þessum náttúrutalentum sem geta stokkið upp á svið í fyrsta sinn og það er eins og þeir hafi aldrei gert annað. Sumir eru þannig og hvort sem þeir mennta sig eða ekki, eru frábærir leikarar alla sína ævi. Leiklistarnám hefði ekki gert mig að stórleikara. Leiklistarnám getur ekki gert alla að stórleikurum. Og þó margir séu menntaðir og stórleikarar, þá eru ekki til í heiminum nógu mörg hlutverk.
Ég starfa með áhugaleikfélögum. Hef tekið þátt í góðum sýningum, hef tekið þátt í vondum. Er líka áhugamaður um leikhús almennt. Hef séð góðar sýningar í atvinnuleikhúsi, og vondar. Svo eru til sýningar (í báðum flokkum) sem eru kannski ekkert svakalega góðar, en er verið að gera spennandi tilraunir sem stundum ganga upp, stundum ekki, en það er þó allavega verið að gera þær. Ég hef líka áhuga á því. Ég vil ekki að leikhúsið staðni og deyi.
Munurinn á því að fara í áhuga- eða atvinnuleikhús finnst mér fyrst og fremst vera sá að í áhugaleikhúsi getur maður átt von á því að sjá byrjendur spreyta sig í fyrsta sinn, í leik eða hvers konar hönnunar eða tæknivinnu. Það geta verið náttúrutalentar, sem oft eru að standa sig miklu betur en þeir reyndari, það geta verið ágætis talentar, sem þó vantar meiri þjálfun og aga, og það getur verið fólk sem er með til að prófa, er farið að dauðsjá eftir því um frumsýningu en kann ekki við að bakka út. (Sjaldgæft, en gerist þó.) Þetta finnst mér líka spennandi að skoða. Einhversstaðar verða menn jú að byrja, og það er gaman að fylgjast með upprennandi leikhúsfólki vaxa og þroskast frá byrjun. Það skal tekið fram að byrjendur er alls ekki að finna í öllum áhugaleiksýningum.
Í atvinnuleikhúsi sér maður alltaf fólk sem á að kunna til verka. Hefur þjálfun. Þó kemur fyrir (sjaldgæft þó) að hæfileikarnir, eða neistinn er ekki alveg til staðar eins mikið og maður vildi hafa. Maður veit líka að líkast til hefur þetta fólk alltsaman einhvern tíma staðið á sviði í fyrsta skipti. Trúlega margir sem náttúrutalentar, upp að einhverju marki, annars hefðu þeir ekki komist inn í leiklistarskóla.
Ég er sem sagt áhugaleikari. Finnst það orð ekki vera til minnkunar. Einu sinni var ég líka byrjandi. Skammaðist mín ekkert fyrir það heldur. Núna er ég líka orðin hálfgert leiklistarnörd. Vil sjá allt mögulegt, taka þátt í umræðum um leiklist og svo framvegis. Sumir virðast hins vegar vilja að allt leikhús sé fullmatreitt og gerilsneitt. Valinn maður í hverju rúmi. Enginn að gera neitt í fyrsta skipti. Þróunin bara gerist ekki þannig. Einhvern tíma verður allt fyrst. Til að eitthvað gerist og þróist, þarf það fyrst að gerast í fyrsta skipti. Ný leikfélög þurfa að byrja á byrjuninni. Líka nýir leikarar.
Þeir ekki höndla að sjá annað slagið byrjendur á sviði geta illa kallað sig áhugafólk um leiklist. Mynd sem endar vel getur byrjað illa. Það þýðir ekki að maður vilji bara sjá endinn.
7.4.04
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli