27.10.04

Geisp!
Vakti lengi og vaknaði snemma til að skúra skrifstofuna mína. Var að reyna að reikna út hvenær ég sæi fram á að sofa út næst. Það er óljóst og allavega allt of langt þangað til. Oj.

Öjmingja rafvirkinn mætti og komst að ýmsu óskemmtilegu um íbúðina mína. T.d. að ljósið yfir vaskinum á baðinu hafði bara verið tengt öðru megin (sem virkar víst ekki alveg nógu vel með rafmagn) og að kapallinn sem hann ætlaði að nota í eldavélina var of stuttur. Þarf að rífa niður eldhúsinnréttinguna til að laga þetta alltsaman. Hann hefur nú lyklavöld að heimili mínu og lofar að allt verði komið í lag þegar ég kem heim frá Færeyjum. Greyið skinnið. Hann er ekki nema svona rétt rúmlega fimmtán ára og var næstum farinn að skæla þegar hann komst að þessu. Er þar að auki búinn að eyða heilu ári í að endurraða rafmagninu í þessari íbúð og fyrir honum er hún "satanísk". Ég vorkenndi honum ógurlega (sérstaklega þar sem hann er á vegum seljanda og ég þarf ekki að borga honum).

Upplifði í fyrsta skipti í gærkvöldi að vera heima hjá mér og hlusta á kvöldfréttirnar í útvarpinu, í sjónvarpslausa húsinu mínu. Það var nú eiginlega bara alveg ljómandi, kom allavega ekkert að sök, enda kom fólk í heimsókn. Ljómandi dáindisgott.

Mig er hins vegar farið að langa alvarlega að spila jóladiska... ætla nú samt að reyna að sitja á mér fram í nóvember.

Engin ummæli: