6.1.05

Langhundur um Óliver.

Sagan, og ekki síður söngleikurinn, um Ólíver Twist hefur verið að valda mér nokkrum heilabrotum.

Nú hef ég ekki lesið upprunalegu söguna eftir Dickens, en hef lesið og séð nokkrar matreiðslur á henni. Og slatta af öðru eftir Dickens. Hann hefur svolítið gaman af því að láta aðalpersónur sínar verða leiksoppa örlaganna (sbr. Great Expectations), þróast og þroskast mikið í gegnum söguna (sbr. Chrismas Carols) og enda í allt annarri aðstöðu en þær byrjuðu, en þó eiginlega fyrir röð tilviljana. Þetta á ekki síst við um Óliver Twist. Hann byrjar söguna á munaðarleysingahæli, lendir í alls konar hremmingum og hjá alls konar fólki, og að síðustu sem erfingi auðæfa. Allt fyrir tómar tilviljanir. En gott og vel með það.

En Óliver er vandræðabarn. Þar sem sagan fjallar um barn hafa margir verið haldnir þeim misskilningi að hún sé fyrir börn. Til þess er hún hins vegar eiginlega of dramatísk, langdregin og... ja bara fullorðins. Þegar mönnum dettur síðan í hug að skrifa upp úr þessu barnvænan söngleik verður ekki hjá því komist að útkoman verði nokkuð... misþroska. Sagan er upprunalega löng og flókin og hefur milljón útúrdúra. Þegar síðan á að sjóða hana niður í eina sviðsetningu þurfa menn að vanda sig vel og reyna að fylgja einum þræði og einni miðlægri persónu, helst. Það gera smiðir söngleiksins ekki. Þeir fara út um víðan völl. Þvælast inn í alls kyns hliðarsögur og þó tónlistin sé flott og grípandi þá er framvinda í henni lítil og fæst hafa lögin nokkuð með söguna að gera. Stundum finnst manni eins og tónlistin sé eiginlega annars staðar frá og hafi verið borað inn í leikritið. Tilgangur þessa er þó nokkuð óljós.

Lögin eru líka jafnmisjöfn og þau eru mörg. Mörg þeirra eru einföld og stuðhvetjandi, eru áheyrileg og höfða alveg eins til barna. Setja stemminguna og bjóða upp á trúðsskap leikara, kannski frekar en að þjóna einhverjum tilgangi í leikritinu. Síðan skjóta upp kolli ballöður. Eins og til dæmis meðvirknissöngvar Nancy um Bill Sykes, sem gefur mér gæsahúð, en ca. tvær línur inn í þá söngva missa börn hins vegar áhugann og upphefja hrókasamræður. Ákveðin atriði í sýningunni eru heldur alls ekki við hæfi barna.

Persónur eru líka mjög misjafnlegar skrifaðar. Þ.e.a.s. í mismunandi stíl. Sumar eru trúðslegar og bjóða upp á trúðslegan ofleik á meðan aðrar verða að leikast af einlægni ef þær eiga að virka. Það er því erfitt að ná einhverjum heildarsvip á leikstíl þessarar sýningar.

Og hann Óliver litli er því miður bara hálfónýt aðalpersóna. Við fáum litla mynd af hans persónu. Jú, hann biður um meiri mat á munaðarleysingahælinu og verður bálvondur ef einhver talar illa um móður hans heitna... Þess á milli er hann eiginlega eins konar leikmunur, sem áhugaverðari persónur verksins sækjast eftir að "hafa". Hvers vegna er illa undirbyggt. Hann hefur ekki næstum því nógu mikinn texta eða vigt í verkinu til þess að áhorfendur kynnist hans persónu upp að einhverju marki. Á hinn bóginn fær þjófapabbinn Fagin hvert einsöngsnúmerið á fætur öðru og er vafalaust best teiknaða persónan í verkinu, án þess þó að hann sé þungamiðjan. Eiginlega ætti verkið að heita Fagin! og vera um hann

Það verður þó að segjast að mér finnst Magnús Geir og Leikfélagar á Akureyri komast eins vel á þessu annars hripleka verki eins og kostur er. Persónur sem bjóða upp á trúðleik eru leiknar þannig. Þær sem þarf að leika af einlægni eru settar þannig fram þannig að persónurnar eru gerðar eins heilsteyptar og kostur er, hver fyrir sig, þó óneitanlega sé á köflum eins og þær komi sín úr hverju leikriti. (Jafnvel sumar úr teiknimynd.) Hópsenurnar eru skemmtilegar, þó þær þjóni takmörkuðum tilgangi, og lausnir og útfærslur skemmtilega unnar. (Ekki skemmir heldur fyrir að í þeim er fallegasti leikari í heimi og hann er meira að segja látinn fara úr að ofan!)

Mörg spurningarmerki verður þó að setja við verkefnavalið. Eins finnst mér fyndið þegar menn eru að státa sig af því að vera með 47 manns á "ekki stærra sviði", þar af 18 börn. Ég verð nú að segja að ég hef oft séð fleiri manns á minni sviðum, með fleiri börn innanborðs með jafnvel betri útkomu. Hvers vegna ætli það komist fleira fólk fyrir á sviðum áhugaleikhúsa en atvinnuleikhúsa? Mér hefur einmitt þótt það ljóður á ráði nokkurra atvinnuuppfærsla að hópsenur verða stundum frekar strjálar og vesældarlegar þar sem "hópurinn" er stundum fámennur nær engan veginn upp því stuði sem á að vera á sviðinu. Það á þó alls ekki við um þessa sýningu, en mér detta t.d. í hug kráaratriðið í Fiðlaranum á þakinu í Þjóðleikhúsinu um árið og eins hópsenur í Rocky Horror í Loftkastalanum. Óttalega klént, eingöngu vegna sparnaðar á aukaleikurum.

En, 47 manns á sviði samkomuhússins á Akureyri finnst mér ekkert neitt svo sérstaklega mikið, oseiseinei. Hef séð 50 manns á sviðinu í Valaskjálf, þar af 32 börn. Ekki fyrir svo margt löngu voru 70 manns á því sama sviði. Allt börn. Þannig að þessi fjöldi finnst mér nú ekkert til að missa legvatnið yfir, svona per se...

Ég vona að ég eigi ekki yfir höfði mér bölbænir galdramannsins Júlíusar fyrir þennan langhund. Vil taka það fram að mér þótti sýningin eins og best verður á kosið, miðað við efniviðinn, og Júlli sætur.

2 ummæli:

Spunkhildur sagði...

Hreinasta snilld. Ég er loksins búin að fatta af hverju það á að skrifa rýni á list. Það er vegna þess að í sumhverjum tilfellum (og sérdeilis þínu) er rýnin skemmtileg og listræn. Núna langar mig að verða rýnis-rýnari þegar ég verð stór og gefa gagnrýni einkunn.

Varríus sagði...

Tek undir allt sem þú segir um söngleik þennan, nema hvað tónlistin er crap líka.

Um uppfærsluna veit ég svo ekkert, en er fegin fyrir hönd LA að ég var ekki sendur að skrifa um hana.

Og svo það sé á hreinu: Ég elllska söngleiki - góða söngleiki altsvo.