24.1.05

Ólíkt hafast menn að. Tvær embættistökur eru nýafstaðnar.

Annars vegar var það hann Bush, sem toppaði sjálfan sig í undarlegum frösum. Hann ætlar að frelsa heimsbyggðina. Það minnti mig pínulítið á Simpson-þátt þar sem allir tóku sér Bart Simpson til fyrirmyndar og höguðu sér eins og þeim sýndist. Vandamálið við frelsi einstaklingsins er nefnilega það að það rekst stundum á við frelsi annarra einstaklinga. (Frelsi hermanna til að pynta fanga í Írak rekst til dæmis harkarlega á við frelsi Íraka til að láta ekki pynta sig...) Svo er nú kannski ráð að athuga aðeins ástandið í þeim löndum sem Bandaríkjamenn eru búnir að "frelsa". Eftir því sem manni sýnist frá Afganistan og Írak eru menn nú ekkert að sleppa sér í friði og velmegun og öðru því sem Bush vill meina að frelsinu fylgi... Og næst sýnist manni eiga að sprengja hús í Íran. Mikið held ég að Íranir verði nú hamingjusamlega frjálsir yfir því. Mesta firra og ófrelsi að búa í húsum alltaf.

Svo er það náttlega hann Júsjenkó sem var að sverja embættiseið í Úkraínu. Hann ætlar að einbeita sér að því að uppræta spillingu og fátækt heima hjá sér. Nokkuð sem náttlega fyrirfinnst ekki í hinum snarfrjálsu Bandaríkjum, eða hvað?

Það vantar fleiri Júsjenkóa. Taka til heima hjá sér, áður en menn fara að vaða offari annars staðar.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mér finnst þú svoooo GÁFUÐ!!!!!!!
Af hverju ræður þú ekki bara öllu??
Ég gæti hjálpað þér?
Værum við ekki gott teymi?????? Ha?
Ylfa

Sigga Lára sagði...

Já, stofnum almennilegan Afturhaldskommatittsflokk. Og stefnum á einræði. Frelsi, mæ es. Fólk kann hvortsemer ekkert með það að fara.