31.3.05

Sjang hæ

Einn er sá maður sem hefur trú á að í mér búi lítill anarkisti sem er stöðugt að reyna að bjótast út. Eða að minnsta kosti róttæklingur. Þegar ég kynntist þessum öðlingi, fyrir einum 20 árum síðan hét hann Daddi og við Heiða settum gosbrunn í hárið á honum. Seinna skaut hann upp kolli í háskólanum, hét Þórarinn Haki og fór mikinn í sandkassapólitíkinni. Enn síðar stofnaði hann flokk anarkista og sjanghæjaði mig í að vera á lista til alþingiskosninga.

Og í gær raxt ég á þennan ágæta mann á götu og lenti í framhaldi af því í kaffi niður í Snarrót, húsnæði Byltingarinnar, í kaffi og spjall um þjóð og heim. Er komin langleiðina með að láta sjanghæjast í einhver skrif og nefndir. Huxanlega fyrir þennan vef.

Róttæklingurinn vaknaði pínulítið og ég mundi eitt sem ég hef gleymt að tjá mig um.
Um daginn var í fréttunum verið að fjalla um útlendingafordóma á Íslandi. Rætt var, m.a. við fólk á Þorlákshöfn. Í báðum tilfellum töluðu viðmælendur um "þetta" þegar talað var um útlendingana sem búa á staðnum. „"Þetta" má svo sem alveg vera hérna.“ „Það er nú eiginlega orðið of mikið af "þessu"“

Eins andstyggilegt og það nú er að hvorugkyns- og hlutgera fólk, þá held ég að það sem böggi mig mest við þetta orðfæri sé eintalan í því. "Þetta". Allir einstaklingar frá sama landi, eða bara útlendingar yfirhöfuð, eru sem sagt svo keimlíkir að það má taka þá saman í eina stærð og kalla þá "þetta". Við notum þetta orðfæri aldrei í annarri merkingu en niðrandi um samlanda okkar, sbr: „Þetta nennir ekkert að vinna.“ „Þetta kann ekkert að ala upp börn.“ Og svo framvegis. Útlendingar þurfa ekki að vinna fyrir þessari heiðursnafnbót með öðru en að hafa fæðst einhvers staðar annars staðar.

Annars held ég að útlendingafordómar á Íslandi stafi af öfund. Öfund í garð erlendra verkamanna sem lifa á því sem við af okkar neysluhyggju köllum skítalaun og hafa samt efni á að senda peninga heim. Við berum nefnilega, svona innst inni, mikla virðingu fyrir fjármálaviti. Þorlákshefningar kvörtuðu yfir því að "þetta" einangraði sig og tæki ekki þátt í samfélaginu. Íslendingar "taka þátt í samfélaginu" með því að fara á tugþúsunda fyllerí eða gera annað það sem kostar morð og grilljónir. Annars taka þeir aðallega þátt í sjónvarpsdagskánni. Þessu tímir enginn heilvita útlendingur á verkamannalaunum sem er að reyna að sjá fjölskyldu í Póllandi farborða.

Hins vegar hef ég ekki séð annað en að þeir útlendingar á Íslandi sem hafa ílengst séu meira og minna á kafi í lista- og menningarlífi landans. Yfirhöfuð miklu duglegri við það en vér fjórmenningar sem hér fæddumst, svona hlutfallslega og miðað við höfðatölu. Enda, ef við ætlum að fara að fetta fingur út í það hverjir búa hér, verðum við þá ekki að fara að flytja heim þá Íslendinga sem búa erlendis? Mér skilst það sé nú bara u.þ.b. helmingur þjóðarinnar. Og hvaða rétt þykjast menn svo sem hafa keypt sér með því að hafa fæðst einhvers staðar? Ekki skipulagði maður það sjálfur. Eiga menn endilega rétt á að verðlaunast fyrir tilviljanakenndar staðsetningar örlaganna?

Já, ég held að róttæklingurinn hafi eitthvað rumskað...
Jafnvel heimspekingurinn.

5 ummæli:

Varríus sagði...

Helvíti góð hugvekja, og gott að einhver reisir þessum kjánum sem létu gabba sig í viðtal í Þorlákshöfn níðstöng. Sjálfur hélt ég ekki einu sinni út að hlusta á þau, heldur skipti yfir á Animal Planet, þar sem öllu þroskaðri samskipti fóru fram.

En róttækt? Ég veit ekki.

Ef þetta er róttækt þá erum við verr á vegi stödd en ég hélt.

Sigga Lára sagði...

Enda er hann bara rétt rumskaður, ekki vaknaður. En, já, ég held við séum frekar illa stödd á vegi. Bráðum þurfum við að breyta nafninu á landinu í Kjánaland.

Nafnlaus sagði...

Ég sá einmitt þessi viðtöl og hjó sérstaklega eftir "þessu". Ég er alveg sammála þessu með eintöluna. Held að hvorugkynið böggi fleiri, en eintalan er lúmsk. Hún er afbragðsverkfæri til að lauma að alhæfingum, sem eru auðvitað eitt helsta einkenni rasískrar orðræðu. Ef þú segir t.d. eins og ein gömul austurrísk vinkona mín "Der Pole ist faul", s.s. "Pólverjinn er latur", þá býður það ekki eins upp á það að vera hrakið með mótdæmum eins og augljósa alhæfingin "Allir Pólverjar eru latir".

Nafnlaus sagði...

Ohh. ég átti einmitt í útlendinga samræðum í matarboði á annan í páskum, þar sem karlmaður og kona hans hófu þessa umræðu: ég er ekki að skilja útlendinga sem koma inn í landi og nenna svo bara ekkert að læra íslensku!!!
Mér varð þetta til um, og svo mikils (orðalag notað í minni sveit hér í den, er að reyna að endurvakja það) að ég bókstaflega missti mig og var næstum farin að úthrópa fólkið sem er öndvegis fólk, Fasista, rasista og illa gefna heimóttar-hálfvita!
En ég hamdi mig og hélt uppi sirka hálftíma löngum fyrirlestri um það hvernig það væri að flytja frá fjarlægu landi af því að maður NEYÐIST til þess, ekki af því að maður hefur svo mikin áhuga á landi og þjóð, heldur af því að fjölskyldan þarf sitt viðurværi. Þegar fólk kemur svo til landsins þá mætir það Sekkond klass viðhorfi íslendinga, vinnur skítastörfin sem við erum augljóslega alltof góð til að vinna, engin býður "því" í saumaklúbb eða læjons en samt á það að hafa brennandi ahuga á að læra tungumálið! Jafnvel að kosta miklum fjármunum til þess! Ég sæi mig í anda læra arabísku EF ég flytti til Saudi eða eitthvað álíka!!!

Þegar að manngreyið sem ég var að hakka í mig klykkti út með því að "bróðir sinn hefði nú flutt til SVÍÞJÓÐAR og sko ba´ra ákveðið að læra bara tungumálið og ekket vesen, þá áttaði ég mig á því að ég var að tala við vegg. Manneskja sem leggur það að jöfnu að flytja til svíþjóðar og frá Indónesíu/tailandi/póllandi til íslands, hann veiot ekkert um hvað málið snýst yfirhöfuð.

Þar liggur hundurinn grafinn íslendingar ERU heimóttar-hálfvitar OG ÉG ÞOLI þÁ EKKI!!!!!!!
OMG, ég ætla ekki að lesa þetta yfir áður en ég pósta þetta. Ég skrifaði þetta á innan við míútu í bræði minni...
YLFA

Hildigunnur sagði...

uuu...

ef ég flytti til sádiarabíu myndi ég þokkalega reyna að læra málið sem þarlendir tala.

en það er reyndar kannski ekki pointið í þessu, ég held nú að flestir þeir sem flytja hingað til að búa hér (þeas ekki farandverkafólk) læri íslensku ef þeir hafa möguleika á því. Það er hreinlega of erfitt að vera mállaus í landi, maður fúnkerar engan veginn í þjóðfélaginu eins og maður gæti. Ég þekki eina frá Sri Lanka - kannast við hana það er að segja. Talar ekki íslensku. Talar mjög takmarkaða ensku. Er handalaus og fótalaus hér, verður að taka átta ára dóttur sína með sér í hvert skipti sem hún þarf að tjá sig. Hún hefur ekki efni á því að fara á íslenskunámskeið.

Það er skandallinn.