5.7.05

Pallivareinníheiminum

Þá er Rannsóknarskipið lagt úr höfn, eina ferðina enn, en nú vonandi í síðasta sinn áður en hann kemur endanlega í slipp í næsta mánuði þegar sambúseta skal hafin við Tryggvagötu. Verður það nú öldungis spennandi.

Nú er ég því einsetukona í foreldrahúsum og fylgja því mikil ferðalög. Til dæmis búa foreldrar mínir nú tvö hús, hliðviðhlið, hafa sem sagt líka umsjón og eftirlit með ömmuhúsi. Og mér finnst nauðsynlegt að heimsækja það allavega einu sinni á dag, svo því leiðist ekki. Og svo býr náttúrulega ennþá internetið í kjallaranum, svo fáránlegt sem það nú er. Pallivareinníheiminum er því búinn að vera á ferð og flugi á milli híbýla sinna í dag, á milli þess sem hann hefur legið í símanum og skipulagt heimsóknir þvers og kruss. (Já, SillaogJóngunnar, það er alveg að koma að ykkur. Ég vona bara að þið séuð ekki farin eitthvurn skrattann í frí.)

Ég náði að sýna Rannsóknarskipinu sveitina mína áður en hann fór. Það var nú rétt eins ljómandi, fyrst ég var búin að gefa mér tíma til að sýna honum Norðfjörð, hvað þá annað. En hann á nú samt eftir alveg helling af Austurlandi eftir.

Og sólbaðsveðrið sem ég var búin að panta er að koma á fimmtudaginn! Og kominn fjandans tími til. Og svo er mig farið að klæja í puttana að byrja á leikritinu sem ég ætlaði að vera byrjuð á. (Já, Toggi, nú fer ég að bögga þig.) Og ég er ekki enn búin að redda mér fari vestur á firði í brúðkaupið hennar Ylfu. Allir sem ég þekki á þeim gestalista mega líka fara að eiga von á böggi frá mér.

En mikið er erfitt að vera bæði amma mín og mamma mín í einu. Ég kem aldrei til með að skilja hvernig þær fara að þessu. Heima hjá þeim báðum er allt ævinlega hreint og hornrétt. Sama hversu margir eru í heimili. Nú er ég hérna ein að hringla, og er alltaf búin að rusla til um leið og ég sný mér við. Og það finnst manni soldið áberandi hér, vegna þess að venjulega er allt hreint og hornrétt, þannig að mér finnst ég ekki gera annað en að vaska upp og gleyma að vökva blómin. Hrædd um að ég verði aldrei sami kvenkosturinn og formæður mínar.

*Andvarp* Best að fara að taka úr helv... þvottavélinni.

3 ummæli:

Gadfly sagði...

Þú verður þá nánast í næsta húsi við okkur Heiðu svo bráðum verður engin afsökun fyrir því að koma ekki í kaffi.

Spunkhildur sagði...

Jibbíkóla.
Ég bið að heilsa austur á land. Öllum sem ég þekki og hinum líka.

Nafnlaus sagði...

Hvað ER þetta með hornréttar húsmæður?? Mér tekst þetta ALDREI. Hjá mér er alltaf allt í drasli þrátt fyrir góðan vilja og framtakssemi!
Þetta bara fylgir....
Ég held að það sé eitthvað einkennilegt við svona konur. Þær fá hjálp frá geimverum á næturnar... eða eitthvað þaðan af furðulegra!
Ég er búin að hola þér í ganghornið með Sævari....
Siðgæðisvörður situr vakt í eldhúsinu svo´að þér er hollast að halda skírlífið þar til að Tryggvagata verður að veruleika..