6.7.05

Sörpræs!

Barneignir og bílslys eru nokkuð sem aðeins kemur fyrir annað fólk.

Ekki satt?
Ekki satt!

Hyggst fjölga mannkyninu um nákvæmilega einn á ári komanda.
Og þá er nú vissara að fara að aka varlega.

Hið nýja fólk ku verða tilbúið til brúx um miðjan janúar og gengur undir ýmsum vinnuheitum, svo sem "JónasogJónmúli" (Árnason) og "Flugvangur" (Leikfélag Fljótsdalshéraðs-Hugleikur-Freyvangur)sem og Liverpúll. (Sem var ekki mín hugmynd.)

Hin verðandi móðir er engan veginn með andarteppu yfir fréttunum, í hvoruga áttina. En hefur þegar fengið ímugust á þeim fávitalega málheimi sem virðist tilheyra þessum málum og vill koma því á framfæri að brúki einhver orðskrípi eins og "bumbubúi" eða slíkt um ástandið verður þeim hinum sama þegar áhrínt mannorðsmissi.

Eins finnst mér rétt að geta þess að ef einhver verður vitni þess að ég missi niður um mig persónuleikann og fer að tala um sjálfa mig í þriðju persónu á smábarnamáli hefur viðkomandi fullt leyfi til að fyrirkoma aumri tilvist minni á staðnum.

Eitthvað hefur verið reynt að lesa sér til um málið, en óléttubækur ættu flestar að heita "Barneignir fyrir fábjána" og hafa svolítið fengið að fara í flugferðir um dvalarstaði þegar mér ofbýður idjótískt málfarið og ýmislegt í inntakinu.
(Um þetta eiga eftir að koma margar pirraðar færslur.)
(Ha? Skapsveiflur? Neinei, ekkert að ráði...)

Móðir Jörð hefur ekki fitnað um eitt gramm og gleymir tilvist erfingjans oft á dag, enn sem komið er. Enda kannski fullsnemmt að fara að fá taugadrullur yfir einhverju sem gerist á næsta ári. Er allavega hætt að nenna að lesa um málið. Þetta á, skilst mér, að gerast meira og minna sjálfkrafa.

Hinn verðandi faðir, Rannsóknarskip, tekur þessu öllu saman með stökustu ró, enda seint við öðru að búast á þeim bænum. Í lokin, ein snilld frá honum úr símanum í gær.

Úr umræðu um íbúðatæmingar:

Skip: Já, ég gæti þurft að verða fljótur að pakka.

Móðir Jörð: Nú? Fljótur? Kanntu það?

Skip: Jájá... það tekur bara dáldinn tíma.


Erfi barnið bæði óþolinmæði mína og rólyndi föður síns er ég hrædd um að það verði alvarlega misþroska.

19 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mér sýnist að hér sé á ferðinni ein lítil steingeit sem með tíð og tíma og staðfestu og reglusemi muni bjarga heiðri ættleggsins um að halda öllu ævinlega hreinu og hornréttu...
Gratúlera!

Nafnlaus sagði...

Herre guð (er í dk), að mig skildi ekki gruna neitt eftir sérdeilis edrúmennsku á leiklistarhátíð!
Ég óska mömmsu og pamba til hamingju með bumbubúann.....múhahaha...og svo verðurðu að stofna síðu á barnalandi.is STRAAAX - og ekki gleyma að kíkja á vitræna spjallið þar!

Mínar bestu,
Huld.

frizbee sagði...

Ó



Gaaaad!!!

Önnur útgáfa af þér í heiminum??? How will we ever survive?

Innilega til hamingju með þetta :*

Siggadis sagði...

Innilega til lukku i krukku sem ekki ma loka ... :)

Ásta sagði...

Til hamingju með erfingjann - mikið svakalega hljóta foreldrar þínir að vera fegnir :)

Spunkhildur sagði...

Til lukku með afsprengi rannsóknarvinnu þinnar. Heiðlaugur á náttúrulega eftir að verða hinn mezti spekingur og laglegur eins og hann á ættir til. Annars væri nú gaman að fara að sjá framan í þig. Ég á enn í handraðanum eitt og annað sem gæti gagnast konum ekki einsömlum. HA ha ha ...

Gummi Erlings sagði...

Ja hérna segi ég nú barasta alla daga! Til lukku með þetta, elskurnar.

Nafnlaus sagði...

Hmmm.. ég var auðvitað búin að óska þér til hamingju en geri það enn og aftur. Og REYNDU ekki að halda kúlinu yfir þessu því að þegar barnið er fætt þá muntu, eins og við ALLAR hinar breytast í sífrandi, gúggúmælandi, yfirsensetíva brjóstamjólkur og bjúgsprengju sem HRÚGAR myndum á netið sem bera yfirskriftina: e mann ekki dædur og dædur ens o pabbi sinn; -og annað þaðan af verra!!!
Ég hef stundum þakkað mínum sæla að fara hreinlega ekki að SLEFA aftur, þegar ég stend í þessum sporum!!! (sem ég hef gert oft oft!!) En sammála er ég þér í því að allar kenningar og bækur skal út í horn blása og fylgja sínu besta brjóstviti! (í mínum barmi býr nóg fyrir okkur báðar ef þig vantar svo aftur ráð...)
En hafðu ekki áhyggjur því að það er EKKERT mál að eiga börn! Ja.. nema fæðingin... og kannski svona fyrstu tuttugu- þrjátíiu árin...

Mér sýnist þetta verða hin mesta fyrirmyndamanneskja, með útlit móðurinnar og húmorinn hans Halla míns!! (þetta innslag rannsóknarskipsins var nákvæmlega í líkingu við orðalag míns bráðumektamanns)
Bíddu nú við....? Húmorinn hans Halla míns??
.......Árni! Við verðum í sambandi!

Svandís sagði...

Til hamingju með þetta :D frábærar fréttir. Megi þetta allt ganga yndislega. Ég hef fátt gert eins skemmtilegt og að vera ólétt.

Nafnlaus sagði...

Ja, hvað getur maður sagt við svona stórfréttum?

Ekki hef ég af neinum viskukornum um meðgöngur að miðla, þannig að ég gríp bara til þaulreyndrar klisju:

Til lukku!

Svandís sagði...

Vantar endann á fyrra komment - átti að vera svona: Ég hef fátt gert eins skemmtilegt og að vera ólétt (og svo átti að koma) og öfunda þig því stórlega. Og bæti því hér með að ég er viss um að Heiðlaugur Svan verður smábátur hinn mesti.

Varríus sagði...

Á svona stundum verður manni orðavant og grípur þá niður í verk hugleiksskálanna, sem reyndar hafa lítið ort um svona ástönd. Þó má þar finna þetta:

Örlagavaldur, aumri veit mér hlíf,
undir belti ber ég núna
agnarpínulítið líf.
Láttu það verða lítinn dreng,
láttu hann eignast hamar og keng,
láttu hann leggja símastreng!
Örlagavaldur, aumri veit mér hlíf


Mazeltov!

Nafnlaus sagði...

Til hamingju bæði tvö.

Nafnlaus sagði...

Úr því farið er að sítera kveðskap:

Þarna siglir einhver inn,
ofurlítil (rannsóknar)dugga.


Til hamingju elskurnar!

Nafnlaus sagði...

...og áður en þú veist af verður þú komin með staðfasta skoðun á því hvort er betra Pampers eða Libero. Til hamingju, bæði tvö, þið þrjú og öll fjögur.

Nafnlaus sagði...

Allar heilustu hamingjuóskir!
Þetta er efnilegt handrit að framtíð og leikstórn í öruggum höndum.
Besta kveðja,
Hrefna.

Nafnlaus sagði...

Noss! Svo það var ástæðan fyrir að það voru fleiri en ég ekki að drekka í gæsuninni hennar Bergsu...
Gaman.
Til hamingju :)

Litla Skvís sagði...

Ég óska ykkur innilega til lukku með væntanlegan erfingja!

Berglind Rós sagði...

Fluffluff, þetta var semsagt pensillínkúrinn ógurlegi! Til hamingju hundrað sinnum, og ég segi eins og Ylfa, bíddu bara ;-)