20.10.05

Allur er fyrirvarinn góður

Systir mín hin norskari er búin að komast að ágæti þess að kynna áætlanir með góðum fyrirvara. Best ég fylgi góðu fordæmi og plöggi og augýsi slatta af trúlega fyrirsjáanlegu.

11. og 12. nóvember verður Hugleikur með Þetta mánaðarlega í Þjóðleikhúskjallaranum. Þar verður, meðal ýmiss annars, einþáttungur leikstýrður af sjálfri mér, huxanlega annar í leikstjórn Rannsóknarskips og einhver atriði úr Jólaævintýrinu, svo eitthvað sé nefnt.

19. nóvember er síðan stefnt að frumsýningu á áðurnefndu Jólaævintýri og eiga sýningar þess að fara fram í Tjarnarbíó og ná fram í miðjan desember eða þarumbil.

24. desember er síðan ætlunin að hefja jólahald í landi voru, víðast hvar kl. 18.00 að staðartíma. Kynning á þessum viðburði er löngu farin í gang. Það fer ekki jafnmikið í pirrurnar á mér þetta ár eins og venjulega, enda byrjaði ég að skrifa jólaleikrit í júlí þannig að mér þykir IKEA bara vera aftarlega á merinni.

13. janúar er áætlað að fjölga mannkyninu, á afmælisdegi Stefaníu móðursystur, Gróu föðursystur og Siggu Birnu Hullara. Þó má vel vera að afkomandanum gremjist að þurfa að deila afmælisdegi sínum með öllu þessu fólki og fæðist einhvern allt annan dag. Enda erfitt að plana frumsýningar af neinni nákvæmni með þriggja mánaða fyrirvara.

Og fleira hefur ekki verið skipulagt í þessu lífi.

2 ummæli:

Spunkhildur sagði...

Það er gaman að þú skulir hafa lagt þig fram um að eignast erfingja á afmælisdaginn minn. Ég geri ráð fyrir að þú haldir nú í þér þessa þrjá daga sem vantar uppá... Er það ekki heillin?

Sigga Lára sagði...

Jah, nú fara veðbankar að opna...