2.5.06

Sko...

Mér finnst ég nú alveg endilega eiga að tjá mig um eitthvað í dag. Veit bara ekki hvað það ætti að vera. Ég hef heyrt því fleygt að konur með börn á brjósti segist vera með "brjóstagjafarþoku" þar sem þær hætta að muna eða vita nokkurn skapaðan hlut. Ég held þetta sé frekar heilaleti sökum fæðingarorlofs. Þessa dagana er ég byrjuð að finna heilann í mér sofna. Held það komi til af of mörgum ísettum þvottavélum, of mörgum ítilteknum herbergjum og hvers konar röðun. Það flóknasta sem heilinn í mér hefur þurft að læra undanfarna 3 mánuði er sjónvarpsdagskráin.

Mig er farið að langa í súkkulaði í tíma og ótíma og þá sjaldan ég þarf að gera eitthvað sem krefst þess að ég brúki á mér höfuðbúnaðinn og/eða fari út úr húsi, nenni ég því helst ekki. (Og, já, ég er enn á geðlyfjum.)

Það mest spennandi sem ég geri þessa dagana er að horfa á Dr. Phil. Í gær píndi hann einn strákræfil í meðferð. Í dag talaði hann við nokkrar heimskar stelpur á aldrinum 21-27 ára sem voru miður sín yfir að vera ekki giftar eða trúlofaðar. Ein hafði gengið svo langt að velja sér kjól, og hring, og skipuleggja veisluna í smáatriðum... og hún átti ekki kærasta. Og hún var 23 ára og hafði áhyggjur af því að enginn myndi nokkurn tíma vilja giftast henni. Og hverjir voru mest að koma þessum ranghugmyndum inn hjá stúlkuvesalingunum? Jú, mæður þeirra. Bandaríkjamenn eru geðveikir.

Skoh, mér tóxt að hafa eina fordómskennda skoðun. Jeij!

Held ég ætti að skrifa smá leikrit og gá hvort heilastarfsemi tekur við sér.

Nokkru síðar:
Byrjaði að vinna pínku, en þá vaknaði Freigátan. Setti nýtt með í öskri og gubbaði síðan hálfri líkamsþyngd sinni yfir mig. Þar með hefur henni einu sinni orðið misdægurt og mér varð ekki kápan úr því klæðinu að ætla að endurvekja mér heilastarfsemi.

Ó-well. Best að fara að horfa á 6 and the city.

Engin ummæli: