22.9.06

Langar

að hjóla heim eftir hádegi og eyða svo því sem eftir er helgar að leika við krakkana mína og knúsa Rannsóknarskipið. Fara með allt stóðið út að labba í sólinni. Og fara kannski í leikhús. Sjá Fagnað í Þjóðleikhúsinu. En eru þetta raunhæfar hugmyndir? Hreint ekki.

Þarf sem aldrei fyrr að hlekkja mig við tölvuna og ansa ekki nema neyðartilfellum í heimilislífinu. Það sem ekki þarf að klárast fyrir þessa helgi þarf að gera það fyrir þá næstu og ég er sybbin.

Langar í bað með blómailmi. Og kjúklingaborgara. Langar líka að fara í IKEA og kaupa innréttingadót til heimilisins. Koma svo heim og raða þeim og skúra eldhúsgólfið. Svo langar mig að eyða svona klukkutíma í að elda eitthvað geðveikt í kvöldmatinn. Leika meira við krakkana, koma þeim í rúmið og glápa svo á síðasta þáttinn í heiminum af Buffy á DVD í faðmi Rannsóknarskips yfir púrtvínsglasi.

Af hverju langar mann alltaf mest til allskonar þegar maður hefur alls ekki tíma til þess?

3 ummæli:

Spunkhildur sagði...

Þegar stórt er spurt verður fátt um svör.

Gummi Erlings sagði...

Og svo þegar maður hefur ekkert að gera fær maður sektarkennd yfir því að vera ekki að gera neitt.

Sigga Lára sagði...

...og dettur heldur ekkert í hug.