27.9.06

Plögg

Hugleikurinn minn er með ofvirkni eins og endranær. Nú á að fara að sýna Þetta mánaðarlega í Þjóðleikhúskjallaranum í næstu viku. Frétt hér.

Sama leikfélag sýnir um þessar mundir sýninguna Systur í Möguleikhúsinu. Það eru ekki margar leiksýningar sem ég hef nennt að sjá tvisvar. Þetta er önnur þeirra. Alveg svakalega gargandi snill þar sem höfundur, leikstjóri og leikarar toppa sjálfa sig hver um annan þveran.

Í Freigátufréttum er það helst að frétta að hún er búin að fá þriðju tönnina, sem er vígtönn. (Ég rek það beint til þess að við Rannsóknarskip erum búin að vera að plægja í gegnum Buffy og Angel seríurnar undanfarið ár.) Svo kann hún líka að standa uppvið. Svona þangað til hún dettur niður og rekur þá venjulega hausinn í eitthvað og upphefst mikill grátur og gnístran. Samt er engan veginn lært af reynslunni. Það er ástæða fyrir því að 7 mánaða börn eiga ekki að vera búin að læra að standa. Annars er hún alveg bara kát, á milli niðurfalla. Er reyndar að fara í skoðun og sprautun í dag sem ekki er víst að verði svo ánægjulegt.

Einnig er samráðsfundur með kennara Smábátsins í dag. Hann er að standa sig ágætlega, þrátt fyrir allt annríkið, en hann mun debjútera í sínu fyrsta hlutverki hjá Hugleik í Þessu mánaðarlega. Nú erum við að reyna að ala upp í honum Sjálfstæði í Skipulagningu Heimalærdóms og Píanóæfinga. Fer allt að koma.

Og þetta er nú aldeilis ljómandi fína haustveðrið. Og er spáð áfram um helgina. Og, eins og við manninn mælt, ég og Bandalagið ætlum einmitt að sitja hana alla af okkur inni á fundum.

Engin ummæli: