12.10.06

Þunn-Glindi

Eins öfugsnúið og það nú er, þá held ég að ástæðan fyrir því að þunglyndissjúklingar ættu ekki að neyta áfengis, og að þeim finnst óstjórnlega gott og gaman að neyta áfengis, sé ein og hin sama. Systir mín blaðamaðurinn, sem einnig er sálfræðingur, útskýrði þetta fyrir mér í einni setningu einhverntíma. Það er vegna þess að þá hreinsar maður upp allar birgðirnar.

Serótónínbúskapur hefur kannski verið í einhverju hakki. Þá er óstjórnlega gaman, svona rétt á meðan maður er að kjamsa á birgðunum af því. Því minna skemmtilegt eftir á. Næstu daga eftir fylleríið er maður nefnilega að vinna sig upp úr engu.

Einkenni næstu daga geta farið frá einhverri lítilli nagandi tilfinningu um að eitthvað sé að, upp í að vera hamslaust og stanslaust dramakast yfir öllum heiminum. Og ef maður er þegar á hægri leið niðurávið, getur þetta sett mann í smá rennibraut.

Mínum fylliríum hefur fækkað með árunum. Meðal annars vegna þessarar andlegu þynnku sem ég nenni ekki. Á tímabili reyndi ég að undirbúa þynnkur svakalega vel. Hafði íbúðina mína algjörlega fullkomlega fína, engan reikning óborgaðan eða mál í heiminum óleyst, reyndi að eiga fullan ísskáp af þynnkumat, var jafnvel búin að ákveða fyrirfram í hvaða inniföt ég ætlaði að fara þegar ég kæmi úr baðinu (sem líka var búið að þaulskipuleggja) og setja viðeigandi efni í vídjóið/DVD-spilarann.

Það virkaði aldrei. Þessi mislitla nagandi rödd er nefnilega ekki til staðar út af neinu sérstöku. Það þarf hreinlega ekkert að vera að í heiminum til að maður lendi alveg niður í kjallara.

Það sem mér hefur þótt virka skár er að fara í lanngan göngutúr, eða gera jafnvel eitthvað ennþá erfiðara. Vera úti og gera eitthvað erfitt virðist kannski kikkstarta einhverju í smá stund.

Ég kemst yfirleitt upp með að drekka í hófi. Eftir tvo bjóra er ég að taka áhættuna að eftirköst verði. En auðvitað er best að sleppa þessu bara. Mér leið til dæmis alveg ljómandi þessa mánuði sem ég var ólétt. (Á geðinu. Fékk reyndar grindverk í staðinn. En hann olli mér merkilega litlu ógeði.)

En, sem sagt, stutt og leiðinleg lausn. Ekki drekka vín. :-(

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þann 16 ágúst átti ég 7 ára edrúafmæli. Besta ákvörðun sem ég hef tekið í lífinu. Af öllum þeim sjúklingum sem koma á Vog þekkja 99,9% þunglyndi, ef fólk nær bata frá áfengissýki er þunglyndi ekki algengara hjá því en öðrum. Sem sagt þunglyndið var því afleiðing neyslu, ekki orsök.
Hlakka annars til að rannsaka rólóa vestursins með ykkur:):)

Sigga Lára sagði...

Já, því get ég vel trúað, að þetta fylgist oft að.

Þórunn Gréta sagði...

Tek undir þetta allt saman. Ég er komin með 2 ár og fjóra mánuði og sjaldan verið með meira jafnaðargeði. Hefur jafnvel orðið að jafnaðargleði á köflum :)

Nafnlaus sagði...

Sjitt, svo geri ég ekki annað en tala um fyllerí á blogginu mínu. Ég held maður sé ekki í lagi.

Sigga Lára sagði...

Jú, það er sko allt í lagi. Ég vildi fegin hafa geðheilsu í endalaus djömm. Og hana hafa margir. Til dæmis Gummi. En ég verð víst bara að láta mér nægja að öfunda hann. ;-)