4.1.07

Nýtt ár

Ég er áramótabarn.
Sem þýðir ekki að ég eigi afmæli á áramótum, heldur í sama skilningi og að þeir sem halda mikið upp á jólin séu jólabörn. Ég er sumsé alltaf í miklu stuði eftir áramót. Ég held ég setji mér svosem ekki neitt sérstök "bein" áramótaheit. En samt fer alltaf í gang um áramót einhver samantekt og uppstokkun í hausnum á mér.

Í upphafi árs er ég því ávallt gagntekin að allskonar hugmyndum fyrirætlnunum og tilfinningu fyrir nýju upphafi með hreint borð. (Og ef ég hef nennt að taka almennilega til á skrifborðinu mínu fyrir jólin er það líka rétt í bóxtaflegri merkingu.)

Klúður síðasta árs eru liðin og enn hefur ekkert nýtt klúður fæðst á þessu ári. Það er voða góð tilfinning.

Sem endranær er ég með heilan haug af hugmyndum um allskyns sem mig langar að gera á þessu nýbyrjaða ári. Bæði í vinnunni, heima hjá mér, á ritvellinum og í leikhúsinu. En til þess að eitthvað af því komist á koppinn þarf ég tvímælalaust að gera eitt.
Það er að nýta tímann betur. Ég fattaði nefnilega allt í einu að skipulagið hefur orðið fyrir áfalli á næstliðnum árum.

Auðvitað er það talsverð breyting að vera allt í einu kominn með fjögurra manna fjölskyldu. Þurfa á hverjum degi að vita hvað er í kvöldmatinn og passa að alltaf séu til bleyjur, skólanesti og hrein föt á fjóra. Þó svo að maður sé að þessu öllu í samvinnu við eiginmanninn. (Og að vera í slíku samstarfi er vissulega önnur róttæk breyting.) Það er þetta með að geta aldrei klárað neitt. Í svona fjölskylduumhverfi, sérstaklega með smábarn í spilinu, breytast nefnilega áætlanir á hverjum degi. Það getur teygst úr smávægilegustu verkefnum út í hið óendanlega. Og það þýðir ekkert að ætla að setjast niður að skrifa þegar maður eru búinn að öllu hinu. Þá gerist það aldrei.

En ég held ég sé að verða búin að læra á þetta. Í staðinn fyrir að sitja einhversstaðar skjálfandi af kvíðaröskun yfir öllu sem eftir er að gera, aftur og aftur út í það óendanlega, þarf bara að vinna aðeins hraðar. Taka meðvitaða ákvörðum um hvað má verða eftir. Svosem eins og þegar var vítlaust að gera á Lækjarbrekku í gamladaga. Þá var enginn endir á því hvað maður gat hlaupið hratt til að geta kannski fengið sér smók einhvern tíma fyrir klukkan ellefu. Þetta er sama dæmið. Nema bara alltaf, og í staðinn fyrir smók kemur skrif eða sjónvarpsgláp. Byrjaði í gær og á morgun. Tók til á undraverðum hraða þegar við komum að norðan og í morgun náði ég að gera helling áður en ég fór í vinnuna. Svo er það bara að halda áfram svona.

Það er sumsé margt á prjónunum fyrir árið og framtíðina.
Og ég hlakka mikið til.

Engin ummæli: