Ég hef lengi vitað að vöðvarnir mínir þyrftu að vera sterkari. Sérstaklega ef ég vil svífa tignarlega í gegnum næstu meðgöngu í stað þess að vagga eins og gigtveik önd þangað til ég leggst í kör á fimmta mánuði. Þetta hef ég sumsé vitað gífurlega vel síðan sjúkraþjálfarinn minn sagði mér það í október. Það tók samt næstum fram í mars að telja í sjálfa mig kjark. Líkamsræktarstöðvar hræða mig.
Ég sá fyrir mér gullinbrúnar Venusir svífandi um á hlaupabrettunum (sem mér hafa alltaf þótt jafnvel meira ógnvekjandi en allar aðrar vítisvélar líkamsræktarstöðva samanlagt) og efedrínlegna stælgæja með strípur lyftandi lóðum á stærð við hausana á sér. Báðar tegundirnar þóttu mér jafnskerí sem hugsanlegir einkaþjálfarar. Það endaði þó með því að ég var búin að finna líkamsræktarstöð í grenndinni og komast að því hvenær Maðurinn sem Kann væri við. Þá var bara að fara.
Nokkrar vikur liðu.
Ókei, það voru mánuðir.
En lox kom að því, á sólríkum mánudegi, að ég herti hugann alla leið upp. Og mikil var undrun mín þegar ég gekk inn í salinn skelfilega, og sjá, hann var fullur af fólki... flestir voru af hinum íslenska ljósgræna vetrarlitarhætti, meirihlutinn á aldri við foreldra mína, fyrir utan eina konu sem var á mínum aldri (og litarhætti) og tvo unglingsdrengi sem líklega langaði að læra að berja frá sér hrekkjusvín.
Og Maðurinn sem Kunni leit ekki út fyrir að hafa nokkurn tíma borðað neins konar E og var einstaklega vel að sér í grindargliðnun. Og hin konan á mínum aldri var einmitt líka að koma sér í form eftir svoleiðis. Aðrir sem voru að læra voru að díla við öldrun og að vera 20 kíló, þannig að við grindgliðnur vorum síst ókúlli en aðrir.
Maðurinn náði góðum árangri í því að fá vítisvélarnar til að vinna fyrir mig í staðinn fyrir að drepa mig. (Eins og ég hef alltaf verið leynilega handviss um að þær myndu gera.) Hann ráðlagði okkur grindgliðnuðum kunnáttusamlega um þjálfun ýmissa vöðvahópa, og hverja væri mikilvægara að þjálfa en aðra fyrir konur í "okkar ástandi".
Rúsínan í pylsuendanum kom þó þegar komið var nokkuð nálægt helvítir hlaupabrettunum. Ég var farin að svitna af fleiru en áreynslu. Ég hef aldrei getað hlaupið. Síðan ég fæddist hef ég alltaf verið komin með hlaupasting og andarteppu eftir u.þ.b. 20 skref. Þegar ég var lítil þóttu mér fullorðnir alltaf uppfullir af sögum um að krakkar kui eiga að geta hlaupið endalaust. (Sérstaklega þegar þarf að smala.) Ég hef aldrei hitt svoleiðis krakka.
Þannig að svona færibönd sem gefa manni valkostina að hlaupa eða deyja eru hroðalegustu pyntingartæki sem ég get ímyndað mér. Þegar ekkert annað var eftir í Ræktinni sem ég kunni ekki á herti ég hugann enn lengra upp og spurði Manninn hvort ekki gerði sama gagn að hlaupa bara úti, sagði hann fegurstu orð sem ég hef nokkurn tíma heyrt:
"Þið eigið alls ekki að hlaupa!"
Það var sem englahjörð hefði lúðrað af öllum kröftum, allt frá hundrað kílóa lóðunum inn í sturtur. Ég ekki bara ÞARF ekki að hlaupa, ég MÁ ekki hlaupa. Mér er fullkomlega óhætt að fara í gegnum lífið, sem eftir er, á virðulegum gönguhraða. En aldrei skal ég reyna að halda þeirri fásinnu að mínum börnum að þau eigi að geta hlaupið endalaust.
5.3.07
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Húrra fyrir þér. Samgleðst innilega.
Mér fannst gaman að hlaupa sem krakki. Það fylgir því svo mikil frelsistilfinning að taka á rás og hlaupa svo hratt að manni finnst maður næstum fljúga. Síðar meir fóru auðvitað einhverjir bringupúðar að flækjast fyrir manni og draga úr áhuganum og ping-hlaupaprófin í skólunum drápu hann endanlega. Mig dreymir samt ennþá um að hlaupa eins og vindurinn...
Skrifa ummæli