24.4.07

Nú er lag

Í fyrsta skipti í nokkur ár sé ég fram á að geta skrifað hvað sem ég vil, í sumar. Ekkert liggur fyrir af fyrirframpöntuðu. Sem væri kannski áhyggjuefni ef ég væri leikskáld að fyrirvinnu, en er hreint spennandi í minni stöðu. Svona getur nú verið ljómandi að vera amatör. ;-)

Í tilefni þess fór ég að gramsa í leikritum og handritum, sýndum og ósýndum, uppköstum og einþáttungum, og komst að því að líklega á ég eitthvað um hillumetra, ef þetta væri í einhverju öðru en bætum.

Ætla að vinna heilmikið í sumar, og leggja svona... allavega eitthvað, vonandi, fyrir Hugleikinn í haust. Af því að þar er nú alltaf svo mikill leikritahörgull. Eða hittó...

Er allavega farið að klæja heilmikið í leikskáldið að fara að garfa eitthvað í þessum gömlu tilraunum til handrita. En mikið djöfull eru þau nú, mörg hver, (ja, ókei, flest hver) (eða, eiginlega bara öll), hund-hroooðalega vond. Sýnd sem ósýnd. Foj.

Námskeiðið sem ég fór á hjá Bjarna Jónssyni í vetur ofsækir nú öll mín gömlu handrit. Ég sé ekkert nema "jammogjæja", "hummogjáog seisei" og aðra óþarfa hortitti. Hrædd um að þetta styttist allt um að minnsta kosti helming þegar búið verður að hreinsa til.
Sussussu.

En, semsagt, ég held það sé að bresta á löngu tímabært ritkast.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Líst vel á þetta, enda nefndi ég þig ekki Ritfríði að ósekju.

Ásta sagði...

Allt hefur sinn tíma - og það er ég viss um að komandi ritkast kemur á hárréttum.