Uj hvað ég er ekki að nenna að byrja á L. Sem verður þó létt verk og löðurmannlegt. Ekkert nema leikritasöfn. Sem ég nenni ekki að fara mjög nákvæmlega í gegnum.
Svo er að hefjast óléttuannríkið. Ætla að reyna að nenna í blóðprufu í vikunni. Grindhvalasund byrjar á miðvikudaginn. Sem verður reyndar æði. Ég er búin að hlakka til að byrja í því aftur síðan ég hætti síðast. Þrátt fyrir ófögur, gelgjuleg og neikvæð fyrirheit um að ætla sko EKKI að fara að kynnast einhverjum konum af því að þær væru líka óléttar, fór það nú aldeilis á annan veg. Það er bara einhvernveginn þannig að þegar maður hangir í heitum potti með sama fólkinu þrisvar í viku, mánuðum saman, fer ekki hjá því að maður kynnist því dáldið. Og svo var þetta fyrirtaxnámskeið. 10 óléttar kjellingar eru samtals hafsjór fróðleix um hvar allt fæst, keypt, leigt og allt þar á milli, auk húsráða við öllu meðgöngu og barneignatengdu. Fyrir utan síðan skemmtilegar sögur af öllu milli himins og jarðar. Fyrir utan það að þegar maður hefur afmarkaðan vettvang til að ræða þessi mál, þá er maður ekki að drepa aðra vini sína úr leiðindum yfir því á meðan. (Enda geri ég það nú helst með endalausu leikfélagaþvaðri.)
Ég held enn sambandi við stelpurnar frá í síðasta sundi og núna í sumar höfum við svolítið hist á helgarmorgnum á vel girtum leikvöllum og horft á börnin æfa sig að hrinda og rífa af.
Ég er búin að ákveða að á þessari meðgöngu ætla ég ekki að ákveða að gera neitt ekki.
30.7.07
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli