19.2.08

Neglur

Sá 11 ára klippir aldrei á sér neglurnar af eigin frumkvæði. Og það þarf talsverðan eftirrextur til að það gerist, þegar foreldrin komast ekki lengur hjá því að taka eftir klónum, sem eru undantekningalítið farnar að brjóta í bága við heilbrigðislög.

Sú 2 ára er nýfarin að sitja kyrr og þæg og góð á meðan neglurnar á henni eru klipptar. Þangað til svona 2-3 eru eftir. Þá er kyrrsetuþolið á þrotum og ekki viðlit að endurheimta það þann daginn. Þá þarf yfirleitt að reyna að muna að sæta lagi einhvern annan dag til að klára.

Og í morgun rifjaði ég upp skemmtunina að klippa neglur ungbarna. Það er nú spennandi og hættulegt verkefni, fyrir alla viðstadda. Þau hafa nefnilega ekki hugmynd um hvaða skanka þau eru að hreyfa, hvernig, eða hvort það er í áttina að einhverju beittu og hættulegu.

Ef ég hygg einhverntíma á frekari barneignir ætla ég að hafa mjög hugfast að þá er ég að leggja drög að 20 nöglum í viðbót...

Engin ummæli: