13.5.08

Kvissbammbúmm...

Held að ritgerðin mín fari alveg að klárast... verð þó að segja að þetta er nú enginn akademískur stórsigur í þetta skiptið. Eiginlega bara alveg beint út úr félaxheimilinu á mér. Sem er ekki annað en viðeigandi þar sem viðfangsefnið er últra-amatöristafélagið Hugleikur. Já, sem er, bæðevei, að fara að frumsýna nokkur leikrit í kvöld, m.a. eitt eftir Rannsóknarskip og annað eftir sjálfa mig!

Sem sagt:
Sýningar verða í Þjóðleikhúskjallaranum í kvöld þriðjudaginn 13. og á föstudagskvöld, 16. klukkan 21.00, húsið opnar 20.30, barinn opinn og skitinn 1000 kall inn, fyrir óinnvígða.

Auðvitað hefði ég nú átt að vera búin að plögga þetta eitthvað fyrr, en ég bara hef alltaf verið að gleyma að þetta er í gangi. Enda er verið að setja upp eintal eftir mig sem ég skrifaði eitthvað um 2001 og var búin að gleyma að væri til. Ég ætla að sjá þetta á föstudaxkvöld, og það verður nú spennandi.

Annars, Rannsóknarskip fékk eina hálsbólguna enn um helgina, fór á læknavaktina og fékk fyrirmæli um að láta rífa úr sér hálskirtlana ekki síðar en strax. Freigátan er líklega á leið í nefkirtlatöku í næstu viku. Ætli sé hægt að fá hópafslátt? Eins og Hraðbátur horar og hóstar þessa dagana yrði ég ekki hissa þó hann yrði kandídat í eitthvað svipað í framtíðinni.

Jæjah. Bezt að halda áfram að reyna að hnýta einhvern endahnút á þessa ritgerð, þó ekki væri vegna annars en þess að tölva Rannsóknarskips er svo gjörsamlega í dauðateygjunum að ég veit aldrei hvort hún endist eina setningu í viðbót. Farin að gefa mér allskonar villumeldingar og dót við hvert fótmál. Og hún er eina tölvan á heimilinu sem á Word. Sem er eina forritið sem ég kann að gera ritgerðir í. Einhver var nú reyndar búinn að segjast eiga Microsoft pakka í makka fyrir mig... en ég get ekki munað hver það var. Og líklega þarf ég að kaupa sollis í PC-lappann minn þegar hann kemur úr viðgerðinni. Nema einhver eigi sollis skrímslaverk handa mér líka?

1 ummæli:

Bára sagði...

hmmm... þori að veðja að þið verðið öll komin með gubbupest á morgun. Sjáumst þá.