Þegar maður er búinn að díla við Lánasjóð íslenskra námsmanna í fimmtán ár veit maður hverju við má búast. Því versta. Þessvegna gerði ég svo sem ekkert annað en að bölva í hljóði þegar ég sá að mars-endurgreiðslan hafði farið út af þjónustureikningnum mínum, þó ég hafi verið búin að sækja um undanþágu frá henni, þar sem ég væri í námi. Ákvað samt að tala við Sjóðmenn í morgun, áður en ég gerði bankaráðstafanir til að framleiða einhvern áttatíuþúsundkall sem ég átti ekki. Konan sagðist ætla að "athuga málið." Ég þakkaði pent fyrir (bjóst aldrei við að frétta meira af "málinu") hringdi í bankann og gerði ráðstafanir sem fólu í sér bjartsýnisstærðfræði og ímyndaðar framtíðartekjur.
Um hálftíma síðar duttu mér allar dauðar lýs og lifandi úr höfði.
Konan úr LÍN hringdi, búin að athuga málið, viðurkenndi klunn hjá innheimtudeild og heimtaði að fá að endurgreiða mér um hæl, gegn framvísun einhvers rafræns sem þjónustufulltrúinn minn gæti sent um netheima. Ég hef nú bara sjaldan orðið jafnhissa.
Er búin að tala við þjónustufulltrúann minn og málið er dautt.
29.5.08
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Ekki var ég svona heppin í morgun þegar ég hringdi, ég var meira að segja á leiðinni að blogga um þessa einstöku fýlu í LÍN konum, ekki körlum, bara konum. Ég talaði við karl um daginn sem var kurteis, en konu í morgun sem heilsaði ekki og talaði önuglega allan tímann, þó ég væri ekki einu sinni að kvarta, ég þurfti bara að fá að vita eitt atriði. En svo þegar jarðskjálftinn reið yfir og ég og nokkrir skólafélagar mínir vorum næstum búin að fá flygil í hausinn í Skipholtinu gerðist ég orðlaus og gat ekki bloggað. Bara gert langt komment. Við flúðum af vettvangi og enginn dó. Heyrumst síðar...
Skrifa ummæli