Árið er um það bil 1960.
Afi minn og amma búa á Hallfreðarstöðum í Hróarstungu en hafa ákveðið að bregða búi og flytja í þéttbýli. Vinur afa vill endilega fá hann til Reykjavíkur. Afi minn var mikill skapmaður og kommúnisti og blótaði meira en flestir aðrir til samans. Amma var hins vegar, og er, mesta skapgæðakona sem aldrei mælti styggðaryrði við eða um nokkurn mann. En þegar hún var þversum fór nú enginn langt með hana. Og nú sneri hún þvert og alveg þverneitaði að flytja til Reykjavíkur. Hún vildi ekki fara hænufeti lengra en í Egilsstaði, og hananú.
Svo var nú ástatt um Egilsstaðakauptún á þessum tíma að þar stóðu ekki nema kannski um tuttugu hús, en þau hýstu starfsfólk mjólkurstöðvarinnar og heilsugæslustöðvarinnar. Afi var búinn að leita af sér allan grun. Og fann ekki út að það væri svo mikið sem fermetri aflögu til búsetur í Egilsstaðakauptúni. Svo hann lagði af stað út á flugvöll, en þar var almenningssími. Hann ætlaði að hringja í vin sinn fyrir sunnan og segja honum að þau myndu koma, en sá var sterkefnaður og hefði líklega getað greitt götu þeirra bæði varðandi húsnæði og atvinnu í höfuðstaðnum.
Þegar afi var á Nesinu, eins og vegurinn út á flugvöll er kallaður enn í dag, kom á eftir honum bíll með miklum fyrirgangi, ljósablikki og flautuþeytingum. Var þar kominn maður sem vildi endilega leigja afa hálfa hæð. Sem afi og amma urðu seinna eigendur að. Og enn seinna meira að segja allri hæðinni. Svo það varð úr að þau fluttu til Egilsstaða með kjördóttur sína á unglingsaldri. Afi fór að vinna í mjólkurstöðinni og amma á heilsugæslustöðinni.
Förum enn aftar í tímann.
Það er sirkabát fjórði áratugur tuttugusta aldar.
Á Kirkjubæ í Hróarstungu situr hann séra Sigurjón. Konan hans heitir Anna. Hún setur upp leikrit á hverju vori. Fólk situr í kringum borð og skrifar niður rullurnar sínar, þar sem þetta er lönnnngu fyrir tíma ljósritunarvéla. Þar er hún Sigga, amma mín, á unglingsaldri. Einhvern tíma leikur þar líka hann Nonni Geiri, svonefndur þar sem hann heitir Jón og er frá Geirastöðum. Prestsonurinn, hann Sindri, er stundum brúkaður í að skrifa upp rullur, en tekur annars lítinn þátt í leiklistarbröltinu.
Á sama tíma er afi minn nemandi í Alþýðuskólanum á Eiðum og tekur þátt í leiksýningum þar.
Sigga amma á samnefnda frænku niðri á Borgarfirði (minnir mig). Sú er Helgadóttir. En þær heita eftir sömu Siggunni. Helgadóttur verður sífellt tíðari gestur uppi á Héraði, enda endar með því að hún verður kona prestsonarins á Kirkjubæ. Þau flytja síðan til Reykjavíkur. Það gerir líka hann Nonni Geiri. Sigga og Sindri héldu samt alltaf góðu sambandi við afa og ömmu og voru tíðir gestir á Austurlandinu á sumrin.
Enn skulum við stökkva til í tíma.
Árið er 1984.
Þau Sigga, Sindri og Jón eru orðin hluti af stórum og fjölmennum kunningjahópi í Reykjavík. Hópur sá ákveður að stofna félag. Ingibjörgu Hjartar dettur í hug að gaman væri að hafa það leikfélag. Hugleikur er orðinn til og hann Nonni Geiri er í þeim kreðsum þekktur sem Jón Fö.
Svo, ef.
Hann Sveinn Guðmundsson hefði ekki náð í skottið á afa á Nesinu þarna um 1960 og afi og amma flutt suður, þá er eiginlega alveg víst að þau hefðu verið í þessum sama kunningjahópi. Eins þykir mér alveg eins líklegt að þau hefðu tekið þátt í leiklistarbröltinu með Hugleik á fyrstu árunum. Svo þannig munaði það bara Sveini Guðmundssyni að ég yrði innfæddur Hugleikari.
En samt ekki.
Ef afi og amma hefði flutt með hálfgjafvaxta kjördóttur sína til Reykjavíkur hún líklega bara alveg misst af því að rekast á föður minn sem flutti í Egilsstaði, beina leið vestan af fjörðum með smástoppi á Bifröst, nokkrum árum seinna.
Svo líklega hefði hann Hugleikur þá alveg misst af mér og ég af honum.
Það tók mig mörg ár að átta mig á þessum tengslum mínum við hugleikska fortíð. Ég var búin að vera mörg ár í félaginu þegar ég tengdi Siggu stofnfélaga Hugleiks við Siggu frænku ömmu minnar. Og ég vissi ekki að Jón fö væri að austan fyrr en að honum látnum þegar ég raxt á minningagrein um hann heima hjá ömmu. Í heimildavinnunni fyrir ritgerðina las ég síðan viðtal við þau þrjú, Siggu, Sindra og Jón, þar sem þau eru að segja frá leiksýningum á Kirkjubæ, þeim sömu og amma mín var áður oft búin að segja mér frá. Þá sá ég að við Hugleikur eigum að hluta, óbeint, sama leiklistaruppruna. Mér fannst það mjöööög kúl. Og varð þessvegna að skrifa um það langa sögu. Þessi hefði nú sómt sér vel á Einu sinni var... námskeiðinu hjá Benna og Charlotte, um árið. Í Hugleik.
6 ummæli:
Skemmtileg saga!
Annars var ég að tala við Berglindi Rós og okkur kom saman um að það væri snilld að hittast yfir kaffibolla, tja, eða bjór ef út í það er farið!
Kveðja Lilja
Hvaða áhugamannaleikshúsættarsögukjaftæðier þetta. Ég rétt missti af því að verða óskilgetin dóttir Björgólfs eldri og fara í nám til Harvard.
Sjæse!
Skemmtilegt.
Og auðvitað miklu merkilegra en einhver leiðinleg nýpóstmódern fræði.
Jæja... nú er kominn nítjándi og ekkert blogg síðan þaráundan! Ég verð nú bara að viðurkenna að þú ert virkasti og skemmtilegasti bloggarinn minn og er alveg ómöguleg ef ég fær ekki fréttir af skifum, börnum og landsins gagni og nauðsinjum frá þér, DAGLEGA... er alveg Sigguholic :-S
Seint kommenta sumir:
Sigga Helga hefur sennilega komið í heimsókn til ömmu þinnar annaðhvort úr Vopnafirði eða Reykjavík, því Helgi pabbi hennar (og ömmubróðir minn) náði í prófastsdótturina að Hofi í Vopnafirði og var þar lengi í vinnumennsku, en flutti svo suður með fjölskylduna.
Ég hafði oft heyrt talað um Siggu Helga og man eftir henni í heimsókn heima þegar ég var u.þ.b. sjö ára, en það var dáldið fyndið að ég var búinn að æfa leikrit með henni í nokkra daga hjá Hugleik árið 1991, áður en ég áttaði mig á því að þetta væri hún náfrænka mín.
Æi, gleymdi að fylla út reitinn. Þetta var altsvo hann ég.
kv.
Sævar
Skrifa ummæli