12.6.08

Hrakfallaskip?

Rannsóknarskipið mitt er nú ekki alveg einleikið. Þó hann sé í vernduðu umhverfi getur hann fundið sér eitthvað klunn. Eins og að missa tánögl. Maðurinn er á leikritunarnámskeiði.

Fór annars með Freigátuna til læknisins áðan. En hún er búin að vera svo erfið og leiðinleg undanfarna daga að meira að segja amman var alveg að fá nóg af henni. Þegar svoleiðis gerist fer ég yfirleitt skömmu síðar með hana til læknis út af einhverju allt öðru og í ljós kemur bullandi eyrnabólga. Í þetta sinn ákvað ég að vera á undan og fara sérstaklega með hana og láta líta í eyrun. Þar var enga bólgu að finna. Rússneski læknirinn á Egilsstöðum heldur vonandi ekki að ég sé með eyrnanoju. En, neinei, hann heldur það ekkert. Hann sagði að hún væri greinilega búin að vera með vírus, kannski og sennilega tvo í röð eða einu, og myndi vonandi jafna sig sjálf, sýkingalaust. En hann hótaði mér allt að viku enn af Gyðu Öfugsnúnu. Á hinn bóginn sagði hann í fínu lagi að leyfa henni að hamast úti eins og hún gæti. Og það er nú gott.

Við vorum nefnilega úti í allan morgun. Aðallega á íþróttavellinum. Þar fann hún nú bara ekki margt sem var bannað, heldur hljóp hún fjögurhundruð metrana, skóflaði í langstökksgryfjunni, hoppaði á hástökksdýnunum og lærði að segja "grindahlaup", fyrir frjálsíþróttagúrúinn móðurafa sinn. Og sem aukabónus hittum við svona 10 - 20 leikskólakrakka á hennar aldri sem hægt var að hoppa með, lengi vel. Ég held ég kannist við foreldra tveggja óþægustu strákanna í hópnum...

Eftir læknisheimsóknina sofnaði Freigátan með pelann í munninum. Það hefur aldrei áður gerst. Hraðbáturinn er sofnaður í vagninum, en hann svaf líka þar mest af útivistinni í morgun. Svo ég er líklegast barnlaus í allavega svona klukkutíma! Best að nota tímann vel, klippa neglurnar og lita hárið.

---

Og lærir maður nokkurn tíma af reynslunni? Einu sinni ákvað ég að lita á mér hárið þegar Freigátan var lítil og við vorum einar heima og hún sofandi. Það fór ekki vel. Hún vaknaði að sjálfsögðu á viðkvæmasta stigi málsins og árangurinn varð ekkert sérstakur. Og núna vaknaði Hraðbáturinn þegar ég var búin að setja lit í hálft hárið. Þegar ég var búin að drösla honum inn og setja hann einhversstaðar mundi ég ekki hvorn helminginn. Í biðtímanum sofnaði hann aftur. Í miðri skolun og næringu vöknuðu bæði börnin. Þegar ég var komin með handklæðið um hausinn og gat farið að sinna þeim voru bæði sofnuð aftur.

Hárið átti að verða í einhverjum svona snemm-Jenniferanisjtonskum lit, sem hét Lys Gyldenblond. Líklegur til að verða appelsínugulur. Með eldgamlan dökkan lit úr öðru apóteki í hausnum gæti hann jafnvel orðið grænn. Ég er enn með handklæðið á hausnum og bíð spennt. Þetta er einmitt það sem er svo spennandi við að sjá sjálfur um eigin hárhirðu. Hárlitun og þegar maður klippir sig í hnakkanum.

Best að gá hvort þau vakna ekki aftur í miðri nögl.
---

Ég var búin að gleyma því allra versta sem getur komið fyrir í hárlitunum. Svona sem ég fæ alveg martraðir um. Nefnilega, alls ekki neitt. Verð á frumsýningu með Nákvæmlega Eins Hár.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

En pæld'í hvað þetta væri mikið bögg á stofu! ,,Fyrirgefðu, ég ætla að skreppa aðeins úr stólnum, kem eftir 2-55 mínútur, geturðu ekki alveg beðið?" Guði sé lof fyrir apótekin.

BerglndSteins