15.8.08

Það er ljóst

að það mun taka veturinn að koma málum hér á heimilinu í nokkurn veginn samt lag. Sit í haugnum miðjum og nenni engu. Rannsóknarskip farið í langþráða klippingu með Freigátuna með sér og Hraðbátur sofandi úti á nýsópuðum svölum. Og mig langar í alvarlegar endurskipulagningar á geymslunni.

Og haldiði að við séum að sjá síðasta meirihlutann í borgarstjórn Reykjavíkur þetta kjörtímabilið?
Ég leyfi mér að efast.

Í aðalfréttum úr heimilislífinu er annars það að Freigátan er næstum alveg hætt að ganga með bleyjur og Hraðbátur er kominn með vígtennur.

Og það sést ekki í svefnherbergið okkar, þar er bara stór haugur af fötum. Ýmist eru þau á leið aftur inn í skáp, í geymsluna, á hjálpræðisherinn eða í ruslið. Og þarf að klárast í dag , svo við komumst í rúmin í nótt. Jæjajæja.

Annars er ég nú mikið að reyna að heyra í gegnum fréttir frá Georgíu. Hroðalega er ég hrædd um að ástandið þar sé mikið verra en maður heyrir. Það er einhvern veginn þannig þegar fréttir eru misvísandi og allir virðast ljúga. Átökin í Georgíu virtust eitthvað svo nálægt, þarna á leiklistarhátíð í Lettlandi þar sem fólk sem maður þekkti átti fjölskyldur þar sem náðist ekki í. Allt í einu hrukku líka alls konar þreifingar Rússa undanfarin ár í eitthvað samhengi í hausnum á mér. Og margir segja að brjálæðingur sé þar við völd. En maður huxar alltaf: Issss hvað ætli þeir geeeeti svosem. Er ekki allt í klessu í Rússlandi?

Sennilega mikið eins og menn huxuðu um Þýskaland millistríðsáranna... 

Þetta var einstaklega stefnulaus bloggfærsla og hreint ekki til fyrirmyndar.

Engin ummæli: