11.8.08

Riga festivalið

Ég veit ekki hvort ég get byrjað að tjá mig alveg strax. Er samt að huxa um að reyna að gera örstutta samantekt. (Þar sem tímamismunurinn vakti mig fyrir allar aldir.) 

Látum oss nú sjá.

- Ég er ekki búin að gera nógu rækilega úttekt á leiklistinni á þessari hátíð til að geta sagt mikið um standartinn á henni, ennþá. Ég hef þó smá tilfinningu fyrir að menn hafi talsvert haldið sig í meðalmennskunni, sumir aðeins fyrir ofan, aðrir aðeins fyrir neðan. Og ég ákvað að ganga í gæðakröfugengið. Meðalsýningar get ég séð heima hjá mér. Á leiklistarhátíðum NEATA vil ég sjá það besta af því besta frá öllum 10 löndunum og ekkert kjaftæði!

- Ég kom aldrei til Sovétríkjanna, meðan þau voru og hétu, en núna er eins og maður hafi séð smá  sýnishorn. Við bjuggum í skóla dáldið fyrir utan Riga. Sváfum á herbeddum og sturtan var... ólýsanleg. Því miður var ég ekki með myndavél. En mér finnst líklegt að þær birtist á fésbókum hátíðarfara innan skamms. Og af því að gistiaðstaðan var svona langt úti í sveit eyddum við talsverðum tíma af hátíðinni í rútum. eitthvað um 20 klukkutímum, reiknaðist okkur á heimleiðinni.

- En lokakvöld hátíðarinnar var Dásamlegt. Yfirleitt leiðast mér svona lokakvöldverðir heldur. Stundum voða mikið spariföt og ræður, eitthvað. Og ekki leist okkur alveg á blikuna þegar í ljós kom að það átti að fara með okkur enn lengra út í sveit, í hina áttina, beint eftir heilan dag af hátíði og ekkert að gefa mönnum neitt færi á sturtu eða sjæni í millitíðinni. (Sem afnam reyndar sparifatahefðina í einnu böggi.) En svo var þetta svona líka ljómandi glæsilegt hjá þeim. Svakalega flottur staður, svona sveitakrá. Dásamlega góður grillmatur, ræðurnar óvenjustuttar, flottasta flugeldasýning sem ég hef séð, þjóðlagakennd hljómsveit sem lék undir dansi. Svæðið hentaði einkar vel til minglunar og menn tóku magnaða spretti á dansgólfinu. Og ferðina til baka, sem við sáum fram á að yrði nokkuð löng, reyndum við formaður NEATA að gera bærilegri með því að skipta mönnum upp í partírútu og svefnrútu. (Tóxt reyndar ekki betur en svo að Litháar skildu okkur ekkert og sváfu í miðri partírútunni, á meðan færri komust þangað en vildu og þurftu að gera sér að góðu lágværan vísi að partíi í svefnrútunni.)
En þessi lokahnykkur var algert æði.

Einhvern tíma þarf ég síðan að tjá mig um margt fleira og fullt í viðbót. Aðallega gera tæmandi úttektir á hverri sýningu fyrir sig. (Af því að mér finnst svo gaman að fá svoleiðis eftir að ég hef verið öfundarkoffort.) En nú er ég að fara að fljúga norðurum land í faðm fjölskyldunnar eftir hádegið. Svo það er víst best að reyna að leggja sig aftur. Og vonandi koma bráðum menn með töskuna mína, sem þeim fannst nauðsynlegt að gera viðskila við mig og láta verða eftir í Köben.

Engin ummæli: