30.10.08

Afmæli!

Annað kvöld er frumsýning á afmælis-einþáttungadagskrá Hugleiks í Listasafni Reykjavíkur. Nánari upplýsingar hér. Miðapantanir hér. Sýningar verða föstudag 31. okt., laugardag 1. nóv. og sunnudag 2. nóv. Miðaverð virðist vera leyndó, en ég myndi giska á verðbilið 1000 til 1500 verðlausar krónur.

Og þarna látum við hjónin nú aldeilis vaða á súðum. Ég skrifa tvö verk, Rannsóknarskip eitt, við leikstýrum einu hvort auk þess sem ég tek þátt í einhverjum tónlistargjörningum á milli þátta og inni í sumum. Og ég held þetta sé bara ekkert svo leiðinlegt.

En ég er nú samt að upplifa hroðalega erfið þrjú kvöld í röð núna. Það þarf víst að láta passa á meðan við erum á tveimur síðustu æfingunum og frumsýningu. Mér fannst það meira að segja agalegt áður en Hraðbáturinn öskraði í klukkutíma hjá Huggu móðu í gær. Í kvöld verða fleiri á vaktinni. Bjarkey mágkona ætlar að vera aðal(barna)pían Siffi bróðir verður með, ef hann verður ekki í vinnunni sökum góðæris, og Hugga móða kemur kannski á seinni vakt eftir námskeið hjá sér. Móðurskipið hefur áhyggjur af þessu og verður að segja það. Sem sagt, áhyggjur af geðheilsu og heyrn barnapíanna. Börnin eiga hreint ekki eftir að bíða neinn skaða af því að þjálfa lungun aðeins. En þau hafa hins vegar ágætisrödd...

Og Freigátan vaknaði með gráti og gnístran tanna um miðja nótt. Hana hafði dreymt að endur væru að lemja pabba og mömmu. Hún hefur kannski heyrt okkur tala um áhorfendur og misskilið eitthvað...

Til að reyna að redda einhverjum úrræðum fær Hraðbátur hraðkennslu á pela í dag... veit svosem ekki hverju það skilar svona á einum degi.

Ég held ég láti líða nokkur ár þangað til við Rannsóknarskip tökum aftur þátt í sama verkefni.
Framhaldinu verður svo bróðurlega skipt. Hann fær að fara í frumsýningarpartí, en ég fæ að sýna tvær sýningar í viðbót. Rómó.

2 ummæli:

Ásta sagði...

Miðaverð er 1500 kr. Veit ekki af hverju þessi upplýsingafeimni stafar.

Siggadis sagði...

Grrr... ég einmitt legg það ekki á nokkra manneskju að sjá um barnið mitt akkúrat á þessum tíma - svo ég er dæmd til að vera hér heima en verð hjá ykkur í huganum :-/

Tutu...