30.10.08

Stubbar

Einu sinni var agnarsmá Ég. Ég átti tvo stóra bræður. Þeir hétu Ríkisstjórn og Útrásargaur.
Dag einn fóru stóru bræður mínir að skíta peningum. En þeir sögðu við Mig:
Þú mátt ekki skíta peningum af því það er ekkert kúl að skíta peningum ef allir eru aððí. Einhverjir verða að halda áfram að vera fátækir og Þú ert svo lítil.

Við þurftum allir að fara til útlanda. 
Ég spurði: Viljið þið vera samferða?
En þeir Ríkisstjórn og Útrásargaur svöruðu: Ne-hei! Þú mátt sko ekki koma með á einkaþotunni okkar því það er ekkert kúl að vera á einkaþotu nema einhverjir ferðist áfram á svona skíta-venjulega farrými. Og Þú ert svo lítil!

Á leiðinni út í heim hittum við Útlending. Ríkisstjórn og Útrásargaur tóku bara af honum peningana hans og sögðu svo: Farðu burt, heimski hundur!
Mér datt ekki í hug að vera vond við Útlending.

Ríkisstjórn og Útrásargaur fengu sér ný föt sem kostuðu eina og hálfa milljón. Varla þarf að taka fram að Ég fékk engin ný föt. Þið megið geta einu sinni af hverju.

En auðvitað er ekkert hollt að skíta peningum til lengdar. Núna eru Ríkisstjórn og Útrásargaur bara komnir með magapínu og harðlífi og allt er stopp hjá þeim. Þeir ná ekki meiri peningum úr rassgötunum á sér svo bráðum fæ Ég fínu fötin þeirra á nauðungaruppboði. Einkaþotan fer þangað líka en hana nenni ég nú ekki að kaupa af því að Ég er ekki fáviti, þó Ég sé lítil. Áður en síðasta flugfélag bræðra minna fer á hausinn ætla ég síðan bara að fara til Útlendings sem man alveg að Ég var ekkert vond við hann, þó hann sé vissulega ósáttur við bræður mína, og leyfir mér að vera þar til skítalyktin heima hjá mér verður horfin.

Þá sitja bræður mínir einir eftir hér með sína óleysanlegu garnaflækju.

Ég gæti svo sem reynt að bjarga þeim en Ég er of lítil.

5 ummæli:

Svandís sagði...

Frábært :) Láta myndskreyta og birta einhversstaðar !!!

Sigga Lára sagði...

Kei. Hver er góður í að teikna fólk að skíta? ;-)

Ásta sagði...

Hugleikur Dagsson

Nafnlaus sagði...

Þú ert snillingur.
Vala

Siggadis sagði...

fékk að vísa í þessa sögu þína í smá verkefni sem ég er að klára - þetta fer bara tímabundið á veraldarvefinn í gegnum vef sem ég er með. Verður farið út á morgun... þú ert bara svo góður penni, elsku Sigga mín :-) Knús!