Hafinn hefur verið búskapur á Selási 9 - 12. Sem gengur ágætlega. Eini gallinn er sá að í húsinu á milli (Selási 10) býr hundur. Þess vegna getur verið erfitt að koma ákveðnum fjölskyldumeðlimum þangað sem þeir eiga að vera að fara. Og það er ekki vegna þess að þeir séu hræddir við hunda.
Fjölskyldan og frænkan brugðu sér annars á Stöðvarfjörð í dag til að eltast við hina víðförlu Soffíu mús. Á meðan aðrir nutu listanna fórum við Hraðbátur í langan göngutúr um plássið. Út um bílglugga störðu á okkur nokkur forviða andlit. Greinilega ekki á hverjum degi sem Stöðvarfjarðarbær upplifir gangandi vegfarendur. Enda fannst mér ég svolítið afturgengin. Búin að gleyma því að einu sinni þekkti ég þetta pláss nú bara alveg dável og fór í tilefni þess í labbitúr bara langt uppeftir og rifjaði upp nokkra drauga. Mikið skelfing er maður nú orðinn gamall og marglifaður.
Leitaði annars lengi að Heljarþröminni sem öll sjávarpláss án stóriðju eiga jú öll að standa á en fann hvergi. Á Stöðvarfirði var sól þó á Héraði rigndi og menn virtust una glaðir við sitt, löguðu bílana sína og dunduðu í görðunum sínum og virtust alveg kæra sig kollótta um að ekkert væri nú lengur kauffélagið í plássinu. Í blíðunni raxt ég á Steinasafn Petru, eitt gallerí og haug af flottum húsum, umkringdum fallegum görðum og villtu lífríki með lækjarhvömmum inni á milli og fór að huxa eitthvað á þá leið að ef til vill væri nú bara ekkert allt fengið með hausafjölda og háum launum. Alveg væri ég allavega til í að fækka hausafjöldanum þar sem ég bý um alla þá ljótu og leiðinlegu og launahæð hefur aldrei verið á neinum óskalistum hjá mér. Best að byrja strax að safna flöskum fyrir húsi á Stövðarfirði. Þar er síðan hægt að lifa af rentunum á því sem fæst fyrir íbúðarholuna í Vesturbænum, sennilega um langa hríð.
28.6.08
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Stöðvó er æðó! ...amk á sumrin.. var þar veturlangt einu sinni hjá tengdó og bar út póstinn. Þar er það þó þannig að öll húsin heita eitthvað OG bera hefbundið götu- og númeraheiti... svo oft bar ég á ranga staði og lærði þetta aldrei - þótt húsin væru fá :-/
Fór í Kjaupfélagið í morgun og sá þig ekki í barnafatadeildinni... reyni síðar :-)
Skrifa ummæli