18.2.09

Hlekkir hugarfarsins

Það er alveg satt. Gildin í samfélaginu hafa verið að harðna. Allt hefur einhvern veginn verið til sölu og yfirborðið verið mikilvægara en innihaldið. Og það er útlit fyrir að nú sé pendúllinn að byrja að sveiflast í hina áttina.

Enn eru menn nú samt við sama heygarðshornið, í bili. Ég held að hugarfarsbreytingin gerist ekki með því að "nýja Íslandi" sé troðið ofan í kok á lýðnum með extensívri ívent planníngu á "viðburðum" sem heita kærleiks- eitthvað og vangaveltum um nöfn eða tákn byltingarinnar eins og um ímyndarherferð sé að ræða.

Fyrsta táknið um hugarfarsbreytingu til mannlegri átta verður að fólk verður hætt að hugsa á þessum nótum.

Þegar hámarksárangursgeðveikinni linnir.
Þegar aftur má gera hluti af engu sérstöku.
Þegar ekki verður lengur sjálfgefið takmark að eignast milljón skrilljónir.

Þá fer að sljákka í öld alheimsfrekjunnar.

2 ummæli:

Spunkhildur sagði...

Þú ert að meina að þegar það eru ekki lengur Mannréttindi að komast til útlanda og eiga landslagshannaðan bústað á friðlandi?

Sigga Lára sagði...

Til dæmis. :)