4.2.09

Spekúler

Ég rak augun í fésbókarhóp um daginn. Svosem ekkert merkilegt. Einhver hafði gengið í fésbókarhópinn "Stoltar strákamömmur." Það var samt eitthvað við þetta sem þvældist fyrir mér böggaði mig og plagaði alveg endalaust. Í dag fór ég að skoða um hvað þessi hópur snerist. Yfirskrift hópsins er "Grúppa fyrir mömmur sem eiga bara stráka og kunna ekkert á stelpur."

Hvernig sem ég leitaði fann ég enga grúppu fyrir "Stoltar stelpumömmur" sem "eiga bara stelpur og kunna ekkert á stráka." Það er kannski ekkert eins kúl.

Þetta hefur stungið mig aðeins, í gegnum tíðina. Ég hef heyrt konur segja þetta. Að þær eigi bara stráka og "kunni bara ekkert á" stelpur. Gjarnan örlar á stolti í röddinni við þessa yfirlýsingu. Ég hef aldrei heyrt neinn halda því gagnstæða fram, að hann eigi bara stelpur og "kunni ekkert á" stráka. Því síður held ég að pabbar sem eiga dætur eingöngu séu þeirrar skoðunar að þeir "kunni ekkert á" stráka.

Nú á ég börn af báðum kynjum og á þeim er talsverður einstaklingsmunur. Ég er þó ekkert þeirrar skoðunar að það sé vegna þess að sum þeirra séu stelpur og önnur strákar. Því síður að annað hvort kynið sé eitthvað sem "kunna" þarf "á" eða að maður "læri á" einhverntíma.
En þegar ég var lítil var ég stelpa. Þannig að ef einhver eðlislægur munur er þarna á, og ég ætti eingöngu syni, held ég að ég gæti hreint ekki haldið því fram að ég "kynni ekkert á" stelpur. Hafandi alist upp sem slík.

Annað sem ég hef velt fyrir mér er þetta með fötin. Þegar ég eignaðist son, tveimur árum eftir að hafa eignast dóttur, var heilmikið af ungbarnafötum sem fór óþvegið aftur ofan í kjallara. Þau voru nefnilega bleik. Stelpuleg. Á sama tíma og stelpan mín verður bara gæjaleg þegar ég set hana í strákaleg föt af stóra bróður sínum þá er það, þjóðfélagslega samþykkt, yngri syni mínum til minnkunar ef hann er klæddur í stelpuleg föt.

Ég heyri konur oft fara mikinn um að þær hafi verið strákastelpur. Bara ALLLTAF verið í byssó. Oft rek ég upp stór augu þegar þessu er haldið fram þar sem stundum halda þessu fram stúlkur sem ég þekkti í barnæsku og man ekkert eftir að hafi leikið sér neitt "strákalegar" en aðrir. Enda minnir mig að það hafi nú bara verið allur gangur á því hjá flestum.
Ég heyri karlmenn yfirleitt ekki státa sig sérstaklega af því að hafa verið mikið í dúkkó. En þeir sem viðurkenna það skammast sín ekkert fyrir það heldur.

Hvað er málið?
Er enn þann dag í dag kúlla að vera strákur en stelpa?
Er eitthvað undarlegt "hipp" við að segjast "ekki kunna á" stelpur?
Er maður þá búinn að afskrifa sinn stelpulega uppruna og orðinn nánast karlmaður?
Er einhver sérstök upphefð í því?

Ég er að hugsa um að stofna fésbókargrúppu sem heitir. "Ég er kona og var stelpa þegar ég var lítil og það er bara fínt."

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég er sko alveg sammála, óþolandi svona komment! Ég skal sko gerast meðlimur í þessum klúbb þínum :) Til hamingju með Friðrik, þvílíkt hvað tíminn er búinn að vera fljótur að líða, börnin okkar bara orðin 1 árs eða að verða það.

Kveðja Ásta skásta ;)

Þórunn Gréta sagði...

Já, til hamingju með Friðrik!

Nafnlaus sagði...

Þetta felst bara algjörlega í einstaklingsmuninum. Mínir þrír eru hver öðrum ólíkari og ég efast um að það hafi eitthvað með það að gera að þeir eru strákar.....

Sigga Lára sagði...

Þjóðsagan segir líka til dæmis að meiri læti og hamagangur sé í strákum...
Á mínu heimili er, allavega enn sem komið er, alla jafna meiri læti og hamagangur í einu stelpunni heldur en báðum strákunum til samans.

En það er svo margt í jafnréttisdæminu sem er skrítið, og vissulega "ójafnt", en enginn spáir í. Sem maður þarf endilega að koma á framfæri, ef maður álpast einhvernveginn niður á það.

Að menn geymi það í bakhöfðinu getur alveg orðið oggulítð hænufet í viðbót í átt til jafnréttis.

(Btw, er búin að vera að fara yfir villuleiðréttingar, og reyna að lesa hana ekki, Karlar sem hata konur. En hún er alveg næst á leslistanum. Á meðan er ég í jafnréttishluta Orðsporanna hans Gunnars Hersveins. Svo minn þankagangur er ljóslega undir mjög ákveðnum áhrifum þessa dagana.)

Spunkhildur sagði...

Svona hallæri innrætir börnum skerta mynd af jafnrétti kynjana, ég mæli með því að þeir sem eiga stelpur horfi blákallt í augun á þeim sem "eiga bara stráka, skiluru" og segja þeim hversu dásamlegt og sérstakt það sé að eiga litla stelpu, en (puh!) það gætir þú nú aldrei skilið.

Elísabet Katrín sagði...

Mér finnst nú bara frekar fyndið að það sé til svona "grúppa" á FB...ég er nú ekki í henni þótt ég eigi "bara stráka" þetta er bara það sem ég hef óskup litla stjórn á...þ.e hvort kynið kemur. Ég hef alveg örugglega einhverntíman sagt að ég "kann ekkert á stelpur" en það er bara til að fela þau vonbrygði mín yfir því að eiga ekki eina ;)

Sigga Lára sagði...

Já, ég veit. Þú ert með stelpuöfund. Ég þarf að lána þér mína og láta hana slást við Mikael eina helgi eða svo og gá hvort þú jafnar þig ekki á þessu. ;-)