3.3.09

Fjölskyldufréttir

Á þrettán mánaða afmæli Hraðbátsins er rétt að taka örlitla pásu frá pólitíkinni og fjalla um það sem máli skiptir. Áðurnefndur Hraðbátur hefur tekið stórstígum framförum undanfarna daga og er nú farinn að rölta skemmri vegalengdir að eigin frumkvæði. Hann fór að standa og taka eitt og eitt skref um jólaleytið en er nú fyrst farinn að ganga svo heitið geti. Hann er hins vegar mesti klifruköttur og prílar upp á allt sem hann mögulega kemst. Og það er orðið ansi hættulega margt. Á meðfylgjandi mynd er hann við eina af sínum eftirlætisiðjum, að tæma pottaskápinn fyrir þakkláta móður sína.
Freigátan er líka hin brattasta. Öskudagurinn var haldinn hátíðlegur á dagvistunarstofnun hennar á dögunum og á meðfylgjandi mynd er hún í gervi Snabba úr múmínálfunum, ef það skyldi vefjast fyrir einhverjum.
Hún hefur mikið dálæti á sögninni að elska þessa dagana og tilkynnti mér í morgun að hún elskaði mömmu og pabba. En ekki bræður sína, var tekið sérstaklega fram. Nokkuð sem á líklega bara eftir að versna.

Smábátur tekur þátt í upplestrarkeppni 7. bekkinga í Vesturbæjarskóla þennan morguninn, reyndar stoppaður af kvefi. Rannsóknarskip fór að horfa á, enda er hann handónýtur til heimabrúks. Er með eitthvað ógurlegt hálsrígstengt skessuskot og hreyfir sig ekki án harmkvæla. Hvað þá að hann týni barnklumpinn upp úr gólfinu ef á þarf að halda. (Á pantað hjá lækni seinnipartinn.) En svo skemmtilega vill til að Móðurskip liggur kylliflöt í einhverri flensu og kemst hvorki lönd né strönd í vinnuna eða neitt. Er þess vegna bara að drattast á eftir stuttfót um húsið og reyna að bjarga honum úr lífshættu á ca. 5 mínútna fresti. En reyndar kemur fyrir að hann stoppar aðeins. Það kemur meira að segja fyrir að hægt er að gabba hann til að horfa aðeins á sjónvarpið. Meira en hægt var að segja um systur hans á sama aldri. Hún er ekki stoppuð ennþá.
Á afmælisveisludaginn voru gerðar nokkrar heiðarlegar tilraunir til að taka myndir af systkinunum öllum saman. Það er ekkert áhlaupaverk. Það er alltaf að minnsta kosti einn asnalegur á svipinn og oftar en ekki allir með rauð augu. En þetta er líklega sú skást heppnaða.

Sem sagt, allir meira og minna lasnir og illa sofnir (venju fremur þar sem Hraðbátur fékk jaxl númer 2 í nótt og Rannsóknarskip var allur á bröltinu að drepast í öxlinni), allt er í alveg endalausu drasli og ég er ekki einu sinni neitt hugsuð um að byrja á helv... lokaritgerðinni.
Er einhver til í að hringja á vælubíl?

2 ummæli:

Sigurvin sagði...

Ansi er hann Frikki sólbrúnn og sællegur þarna við hliðina á systkynum sínum. Er hann farinn að stunda ljósabekkina? :)

Sigga Lára sagði...

Nei, hann er með einhver vestfirsk duggaragen. Alltaf ferlega svona gulur, eitthvað.