9.3.09

Hákon Aðalsteinsson – In Memoriam

Vænn og snotur maður er fallinn frá. Einn af þeim sem vill alveg örugglega láta minnast sín með gamansögu.

Téður einstaklingur var húsbóndi heimavistar Menntaskólans á Egilsstöðum þegar undirrituð var þar nemi. Og sjaldan öfundsverður af hlutskipti sínu. Eitt af asnastrikum nemenda var að stofna ofdrykkjusamtök ógurleg sem nefnd voru Vínpís. Voru þau stofnuð til að hleypa enn frekari eldimóði í það sem ungdómurinn stundar gjarnan hvað mest í fávisku sinni, að drekka sig svo svartölvaðan að hvorki viti í þennan heim né annan. Inntökupróf þurftu menn að þreyta til að fá formlega inngöngu í þennan göfuga félagsskap, en það krafðist svo gríðarlegrar áfengisneyslu að mig minnir að formaðurinn sjálfur hafi fallið á því. Sem og flestir aðrir sem þó gerðu sitt allra besta.

Eins og vænta mátti átti húsbóndi heimavistar í þó nokkrum önnum helgina sem tileinkuð var þessum prófraunum. Menn voru að þvælast heim í bæli, ælandi og spúandi, undir morgun, hangandi hver á annars öxlum.

Þá ku Hákon (sem ekkert átti að vita um tilvist samtakanna) hafa mælt þessa spaklegu setningu:
"Ég sé vínið. En hvar er písið?"

Hvíl í friði.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hákon var frábær og þetta var skemmtileg saga! Hann hefði kunnað að meta hana!