28.5.09

Lokadagurinn Ógurlegi

Jæja, þetta gerist aldrei með þessu áframhaldi. Er alltaf að bíða eftir að ég hafi tíma til að gera þessu skil, svo ég geri það bara núna.

Lokadagurinn í færeyska skólanum var með svarfdælsku sniðið. Fimm hraðsoðnar sýningar voru búnar til, eftir fjórum leikþáttum. Listin að lifa og Sigurvegarinn eftir sjálfa mig höfðu verið þýddar á færeysku (Kynstrið að liva og Vinnarinn) og auk þess voru settar á svið tvær senur úr verkinu sem hann Eiðfinnur var að vinna með, Intro og Cafe, sem var leikin tvisvar. Vér höfundar leikstýrðum líka þar sem leikstjórnarnemar voru aðeins þrír. Ég fékk í minn hlut annan Cafe-leikinn. Mikil forréttindi. Eins og einhver sagði, þessi sena er eins og sjortkött í gegnum brúðuheimili. Afskaplega flott atriði. Og leikararnir sem ég fékk voru hreint ekki af verri endanum. Gamalreyndir leikarar úr Sjónaleikarahúsinu. Þarna bjuggum við líka við þann lúxus að vera með leikmyndahönnuði með í ráðum. Ég fékk hann Ragnar, lítinn og feiminn senógraf sem var algjörlega með mér í "less is more"-inu. Útkoman var algjör snilld. Og eftir að hafa þar að auki fengið að horfa á flottar uppfærslur af tveimur verkum eftir sjálfa mig fannst mér ég algjörlega eiga daginn.

Svo var það þegar allir voru að verða farnir, um fimmleytið, að mér bárust þær fregnir að við værum að fara í mat til íslenska sendiherrans í Færeyjum. EFTIR KLUKKUTÍMA! Enginn tími til að slaka á, bara skella sér í skárri leppana og bruna. Þar var tekið vel á móti okkur með kostum og kynjum, heilmiklu víni og fantagóðum mat, og vorum við þar í besta yfirlæti. Um hálfellefuleytið, eftir föroyskan dans og svona, var kvöldinu ekki aldeilis lokið. Neineinei. Færeyski formaðurinn tróð okkur öllum í bílinn sinn og brunaði með okkur í annan í færeysku brúðkaupi. Það fer þannig fram að allir hittast, borða mikið og syngja saman, hátt og mikið. Hellt í mann bjór og snöfsum og svona. Einhvern tíma uppúr miðnætti fórum við nú samt í Fólkaháskúlann okkar, til að eiga smáspjall fyrir svefninn.

Og svo bara, upp ellldsnemma morguninn eftir og þrusað uppá klaka.
Allt í einu er þreytan síðan bara orðin næstum skiljanleg...

Engin ummæli: