29.7.09

Ferðamennska á Nýja Íslandi

Þá er sumarútlegðinni lokið í ár. Lokasprettinum eyddu við á Suðurlandinu og tókum það í þremur stökkum. Skoðuðum aðallega sundlaugar og erlenda ferðamenn.

Sundlaugar á leiðinni prófuðum við tvær. Fyrst fórum við í góðærislaugina á Höfn í Hornafirði. Eitt af því ágæta sem góðærisbruðlið skildi eftir sig eru nokkrar alveg frábærar sundlaugar vítt og breytt um landið. Hafnarlaug er ein þeirra. Rennibrautirnar ku vera afar skemmtilegar. (Verst að þegar Smábáturinn er ekki með í för er heimilisfaðirinn einn um að hafa smekk fyrir þeim. Freigátan þorir alls ekki, en unnið er í því að koma Hraðbátnum á bragðið.) Góðærispollurinn á Höfn er semsagt alveg ljómandi. Fyrir utan skítakuldann og rokið sem var í honum þegar við áttum leið um.

Svo endurnýjuðum við kynni okkar við sundlaugina á Hvolsvelli. Síðast fórum við í hana þegar Freigátan var pons. Hún gerði gríðarlega lukku. Hraðbáturinn náði niður í sullupollinum og var hinn drýgindalegasti. Svo voru æfðar dýfingar í stóru lauginni af talsverðum áhuga. Veðrið var miklu betra en í Hornafjarðarlaug og Hraðbátur var tekinn með í rennibrautina svo heimilisfaðirinn hefði afsökun til að fara tvisvar. Þarna er líka hægt að fá sér kaffi í heitapottinum. Heimilislegt. Sundlaug Hvolsvallar fær sem sagt enn meiri meðmæli, þó minna góðærisbragð sé af henni.

Og svo eru það túristarnir. Mikið svakalega finnst mér hressandi á sjá erlenda pokaferðamenn fá sér hressilega neðan íðí á meðan íslendingarnir láta eins og þeir séu allir í góðtemplarareglunni. Sjá útlendinga vera svolítið eins og Íslendingar eru stundum í útlöndum þar sem ódýrt er að drekka. Verð að viðurkenna að mér er örlítið hughægra um vínhegðun landans.

Svo nú erum við endursnúin. Alltaf ágætt að koma aftur heim, þó viðurkennast verði að fjölskyldurnar í norðrinu og austrinu togi nú alltaf svolítið. En nú hefst doktorsnám sem gerir það vænanlega að verkum að hér verðum við áfram næstu 5 árin eða svo.

Best að fara að gera vistunarsamning við Hraðbátsleikskólann og athuga hvenær sundskólinn hennar Sóleyjar byrjar... og hlaupa svo kannski svona 8 kílómetra af 10 km Reykjavíkurmaraþonshringnum.

Engin ummæli: