10.7.09

Sólin og sumarylurinn

Vér heilsum úr blíðunni á Héraðinu. Hér var spáð norðaustan skítaveðri þegar við vorum á leiðinni, en eitthvað minna hefur nú krælt á því. Börnin eru náttúrulega útisjúk eins og venjulega og eru búin að göltrast hér um hálfstrípuð í tæpa viku. Enda orðin kolbrún. Mismikið, reyndar. Freigátan er mjólkurlituð að eðlisfari, eins og vill "brenna við" í minni móðurætt, en Hraðbáturinn er með litarhaft það er stingur sér stöku sinnum niður í minni föðurætt og er líklega um að kenna einhverjum frönskum skútusjómanni sem ekki er getið í kirkjubókum... Þarf að spyrja ömmu í westrinu útí þetta við tækifæri. Hef grun um að þessi skandall hafi orðið einhversstaðar í hennar framættum. Menn hafa sem sagt gerst fram úr hófi svartsýnir í veðurspám fyrir eystrið að ég fer að halda að eitthvað sé hæft í ásökunum heimamanna um illan ásetning veðurspármanna um að ljúga ferðamönnum frá svæðinu og í suðvestrið. Næstum. Börnin hafa verið iðin við að draga örþreytta foreldra og móðurforeldra á milli rólóa auk þess sem elst hefur verið við hunda, ketti og annan búfénað um bæinn þveran og endilangan. En í því stendur aðallega Freigátan. Hún er dýrvitlaus.

Allavega, eins og áður sagði þá höfum við verið hér í austrinu í tæpa viku og eftir aðra slíka ætlum við norður aftur, en við eigum orlofsíbúð á Akureyrinni 17. - 24. júlí.
(Myndin hér til hliðar tengist því ekki neitt, er af Freigátunni ásamt ömmunni og afanum þegar gengið var í Surtshelli þegar við vorum í Húsafelli í síðasta mánuði.)

Helsta afrek hér austanlands þykist móðurskip eiga. (En af henni fylgir ekki mynd þessari færslu þar sem hún er enn of feit til að vera á filmu festandi.) Allavega, þegar ég kom hingað á laugardagskvöldið síðasta, hljóp ég 1 km. Var næstum dáin. skreið heim másandi og blásandi og var vart hugað líf. Setti mér þá það markmið að geta hlaupið 1 km án þess að vera næstum dáin, áður en ég færi héðan. Nema hvað, það markmið náðist strax daginn eftir. Á þriðja degi hljóp ég 1200 metra og hefði getað haldið áfram. (Nema vegna tímaskorts. Á fjórða degi var ég reyndar löt, hljóp 800 og hugsaði um súkkulaði allt kvöldið, en í gær vannst stórsigur. Ég hljóp 2 km og varð þreyttari í fótunum en lungunum. Mikill persónulegur sigur. Þessu skal fram haldið þar til um 15 kíló verða horfin út tilvist minni. (3 og 1/2 þegar farin.)
Annars hefur Rannsóknarskip verið endurheimtur úr heyskapnum í norðrinu og er nú þrælað út með börnin og buruna. En hann fær að fara í golf eftir hádegið.
Eitthvað höfum við nú verið í lélegri kantinum við að hitta fólk, kannski mest vegna þess að hleðslutækið varð óvart eftir fyrir sunnan, en það kemur í póstinum á eftir svo einhver úrbót verður máske á þessu.




Gítaræfingar hafa ennfremur orðið svolítið útundan, ef frá er talinn listi með einhverjum 47 lögum á, sem mig langar að læra... Alltaf gaman að setja sér kolgeðveik markmið. Eins hefur leikritun, doktorsátlæn og allt sem ég ætlaði að gera fyrir Bandalag íslenskra leikfélaga setið á hakanum, en nú ku norðaustanáttin ætla að láta sjá sig á sunnudaginn... ég krossa putta. Þetta endalausa góðviðri gengur ekki...

Engin ummæli: